Kristrún og Dagur helst nefnd

Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og …
Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Samsett mynd

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur bendir á að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, séu þeir einstaklingar sem hafi helst verið nefndir í tengslum við framboð til formennsku í Samfylkingunni. Hvorki Dagur né Kristrún hafa þó enn sem komið er tilkynnt um framboð.

„Það bendir allt til þess að Kristrún Frostadóttir hafi áhuga á að bjóða sig fram og svo er spurning hvort að Dagur bjóði sig fram,“ segir hún

Logi Einarsson hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í Samfylkingunni á Landsfundi sem fer fram í haust en Logi tók við sem formaður í október 2016.

Erfitt að meta styrkleikann

„Það er erfitt að meta styrkleikann fyrirfram af því þetta er svo lítið komið af stað í umræðunni,“ segir Stefanía um hugsanleg framboð þeirra Dags og Kristrúnar.

Hún bendir á að Dagur sé gamalreyndur foringi í Samfylkingunni þó hann hafi lengi verið í borginni. Þá sé hann einnig fyrrverandi varaformaður flokksins.

„Hann er margreyndur stjórnmálamaður en það hefur nú verið talað um það að  það væri betri ef formaður kæmi úr þingflokki eða væri virkur inni á þingi svona almennt séð. Það gæti mælst á móti því að fólk myndi velja hann,“ segir Stefanía um Dag.

Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„En Kristrún hún er ung og hún er nýkomin inn á þing með miklu minni stjórnamálareynslu. Sumir gætu talið það kost á meðan að aðrir teldu það ókost,“ bætir hún við.

Stefanía bendir einnig á að borið hafi á ágreiningi innan þingflokks Samfylkingarinnar sem sé mjög lítill flokkur og því geti það verið áberandi ef fólki kemur illa saman í litlum hóp. Það sé eitthvað sem kunni að vinna gegn Kristrúnu.

Pressa á Loga undanfarna mánuði

Stefanía segir það hvorki né hafa komið sér á óvart að Logi skyldi ákveða að gefa ekki kost á sér í haust. „Það hefur verið svolítil pressa á honum undanfarna mánuði að gefa þetta frá sér,“ segir Stefanía og bendir á að Össur Skarphéðinssyni, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og ráðherra, hafi haldið þeirri pressu á lofti opinberlega.

Össur beindi orðum sínum að Loga í facebook-færslu í síðustu viku og spurði hann hvenær hann ætlaði „að láta nótt sem nemur og lýsa stuðningi við að Kristrún verði leiðtogi flokksins“. Ennfremur sagði hann það vera hans trú að hún gæti aftur „lyft Samfylkingunni í oddaaðstöðu í íslenskum stjórnmálum“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert