Meðferðarheimilið á Laugalandi enduropnað

Meðferðarheimilinu Laugalandi var lokað fyrir rúmu ári en starfsemi er …
Meðferðarheimilinu Laugalandi var lokað fyrir rúmu ári en starfsemi er hafin þar á ný eftir mótmæli fyrrverandi aðstandenda og skjólstæðinga. Ljósmynd/Barnaverndarstofa

Starfsemi er aftur hafin í húsnæði meðferðar- og stúlknaheimilisins á Laugalandi í Eyjafirði en starfsemin mun fara fram undir öðru nafni. Þetta staðfestir forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Ólöf Ásta Farestveit.

Eins og fyrr hefur verið greint frá var meðferðarheimilinu á Laugalandi lokað í fyrra eftir að rekstraraðili heimilisins, sem var einkafyrirtæki, ákvað að hætta starfseminni. Lokuninni var í kjölfarið mótmælt af aðstandendum og fyrrverandi skjólstæðingum Laugalands á vefsíðu undir nafninu Laugaland bjargaði mér þar sem var safnað frásögnum og undirskriftum.

Að sögn Ólafar mun Barna- og fjölskyldustofa núna reka heimilið og ríkisstarfsmenn ráðnir þar til vinnu. Þannig verður fagleg starfsemi tryggð á Laugalandi að mati Ólafar.

Verður þjónustan á heimilinu í boði fyrir stúlkur og kynsegin og sérstök áhersla á lögð áfallameðferð. „Stúlkur sem hafa verið í neyslu eru oft með langa áfallasögu,“ segir Ólöf. Mun húsnæðið því þjóna mjög svipuðu hlutverki og það gerði áður en því var lokað að sögn Ólafar.

Segir Ólöf að starfsemi sé nú þegar hafin og þrjár stelpur njóti nú þjónustu þar, en heimilið verði formlega opnað 27. júní þar sem nýtt nafn þess verður kynnt. Í lokin segir Ólöf að gríðarleg vinna sé að baki en hún sé hæstánægð með að undirbúningnum sé lokið svo að hægt sé að veita mikilvæga þjónustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka