Það sem af er deginum hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnt þremur útköllum vegna innbrota. Tilkynnt var um innbrot í nýbyggingu í austurborginni, innbrot í vinnuskúr sömuleiðis í austurborginni og innbrot á gististað í miðborginni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þar segir enn fremur að ekki liggi nánari upplýsingar um málin að svo stöddu.
Einnig var tilkynnt um þjófnað á dósum úr söfnunargám í vesturbæ Reykjavíkur.
Í Garðabæ var bifreið ekið á steinvegg en engin slys urðu á fólki. Þá barst tilkynning frá verkstæði í Kópavogi um starfsmann sem hafði misst meðvitund í bílagryfju. Var viðkomandi fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku, en talið er að um veikindi hafi verið að ræða.