Skoða að uppfæra samninginn við Úkraínu

Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, Dominique Hasler, Jurin Laksanawisit, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, …
Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, Dominique Hasler, Jurin Laksanawisit, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Janicke Andreassen og Henri Getaz. Ljósmynd/EFTA

Möguleikar á að uppfæra verslunarsamning EFTA við Úkraínu, sem var upprunalega gerður árið 2010, voru ræddir á fundi EFTA ráðherranna á Borgarnesi í dag en þar voru áhrif heimsfaraldursins og stríðsins á fæðuöryggi, virðiskeðjur og alþjóðaviðskiptakerfið í heild sinni til umfjöllunar. Þá voru fríverslunarviðræður við Taíland og Kósovó einnig ýtt úr vör á fundinum.

Fundarhöldin hófust í Borgarnesi í gær og marka þau lok eins árs formennsku Íslands í EFTA samstarfinu en að sögn Kolbrúnar Þórdísar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra hefur dagskráin í dag gengið vel.

Hún stýrði fundinum en ásamt henni sátu fundinn þau Dominiqe Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Janicke Andreassen, aðstoðar viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs og Marie-Gabrielle Ineichen-Fleisch, ráðuneytisstjóri í efnahagsmálaráðuneyti Sviss.

Að sögn Þórdísar Kolbrúnar var fundurinn mikilvægur ekki síst vegna þeirrar óvissu sem steðjar að heiminum vegna innrásar Rússa. Er því mikilvægt að standa vörð um EFTA samstarfið.

„EFTA er með fjölda viðskiptasamninga og er okkar mikilvægasta samstarf sem við eigum þegar kemur að því að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is.

Pólitísk skilaboð

Á fundinum komu ráðherrarnir sér saman um að leita leiða til að styðja Úkraínu áfram, meðal annars með þátttöku í refsiaðgerðum gegn Rússlandi. Þá voru fyrrum aðgerðir ríkjanna vegna stríðsins einnig ræddar.

„Við bæði fórum yfir það hvað EFTA hefur gert – fordæming á árás Rússa frá því í byrjun mars og hvað ríkin hafa gert sitt í hvoru lagi. Síðan ræddum við sérstaklega möguleika á því að skoða það að uppfæra fríverslunarsamning sem EFTA er með við Úkraínu sem var gerður árið 2010.

Við erum vissulega eina EFTA ríkið sem að hefur afnumið alla tolla af landbúnaðarvörum í eitt ár og það hafa úkraínsk yfirvöld sérstaklega óskað eftir og Bretland hefur brugðist við því, og Evrópusambandið sömuleiðis, og nú Ísland líka. Það var aðeins rætt.“ 

Pólitísk skilaboð

Þá nefnir Þórdís Kolbrún einnig að vinna við gerð fríverslunarsamnings við Moldóvu sé langt komin á leið og auk þess séu viðræður um slíkan samning að hefjast við Kósovó. Fundaði hún með Rozetu Hajdari, viðskiptaráðherra Kósovó, áðan.

Að sögn Þórdísar eru þetta pólitísk skilaboð til ríkja í nágrenni Úkraínu, Rússlands og marka Evrópusambandsins, þar sem vaxandi viðkvæm staða er vegna stríðsins.

„Við viljum gefa skýrt merki um að þau ríki sem að eru að sækjast eftir því að eiga frjáls viðskipti við EFTA-ríkin - að við leitum leiða til að gera betur í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka