Synjun um endurupptöku ólögmæt

Þórshamar, hús umboðsmanns Alþingis við Templarasund 5.
Þórshamar, hús umboðsmanns Alþingis við Templarasund 5. mbl.is/Eggert

Ekki var byggt á réttum lagagrundvelli né viðhlítandi mati á þeim atriðum sem máli skiptu í þremur beiðnum um endurupptöku örorkumats sem voru teknar fyrir af úrskurðarnefnd velferðarmála. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja beiðni um endurupptöku í málunum þremur en í áliti umboðsmanns kemur fram að synjunin hafi verið ólögmæt. 

Umboðsmaður telur það ólögmætt að niðurstaða nefndarinnar hafi einungis byggst á því að meira en eitt ár hafði liðið frá úrskurði og þar til að óskað var eftir endurupptöku. Að mati nefndarinnar voru engar veigamiklar ástæður til þess til að taka málið upp að nýju.

Umboðsmaður benti á að í athugasemdum við lagagrein í stjórnsýslulögunum, sem fjallar um endurupptöku máls, væri gengið út frá því að aðili máls gæti átt rétt til endurupptöku í fleiri tilvikum en þeim tveimur sem greinin tæki til.

Að mati umboðsmanns Alþingis var ekki lagt fullnægjandi mat á endurupptökubeiðnirnar og var því úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála ekki reistur á viðhlítandi lagagrundvelli. Að auki athugaði nefndin ekki þau nýju gögn sem voru lögð fram við meðferð málsins til að meta hvort að þau hafi þýðingu eins og þeim er skylt og rétt að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka