Tveir með Covid-19 létust um helgina

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalnum.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalnum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tveir sjúklingar með Covid-19 létust á Landspítalanum um helgina. Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, í samtali við mbl.is.

Að sögn Más eru 34 einstaklingar með Covid nú inniliggjandi á spítalanum og liggja þeir á níu starfsstöðum hans. Enginn er á gjörgæslu eins og stendur.

Már segir stöðuna snúna. Nú sé orlofstími og mikil veikindi meðal starfsmanna. Mönnunarvandamál séu því í hámarki.

Opinberar tölur sýna að um 200 manns greinist nú smitaðir af veirunni daglega.

Grímuskylda starfsmanna, sjúklinga og gesta var endurvakin á spítalanum 16. júní í kjölfar fjölgunar smita. Þá voru heimsóknir til sjúklinga á legudeildum einnig takmarkaðar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að fólk sem liggur á spítalanum sé mikið til eldra fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þó veikist ungt óbólusett fólk einnig mikið. Lítið væri þó um endursmit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka