Uppreisn kvenna átti að vera hófleg

Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur við Háskóla Íslands, sótti á dögunum …
Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur við Háskóla Íslands, sótti á dögunum ráðstefnu Norræna þjóðfræðinga og fór með erindi um kvenleikann og kynjuð valdahlutverk í þjóðsögum. mbl.is/ Kristinn Magnússon

Við nánari lestur á íslensku þjóðsögunum blasir við töluverð misskipting kynjanna. Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur við Háskóla Íslands, hefur rannsakað þennan geymda hlut sagnanna en síðastliðin þriðjudag fór hún með erindi um kvenleikann í íslenskum þjóðsögum þegar hún sótti Norrænu Þjóðfræðiráðstefnuna.

Tilvalið að heimsækja þjóðsagnirnar

Erindi á ráðstefnunni eru eins fjölbreytt og þau eru mörg en eiga það sameiginlegt að skoða samfélagið, menningu og siðfræði í fortíð eða framtíð. Ráðstefnan er haldin þriðja hvert ár og var á dögunum í Stakkahlíð, húsi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, en um 500 þjóðfræðingar sóttu hana. 

Dagrún segir þjóðsögurnar speglast af þeim hugmyndum sem menn höfðu um kynjahlutverk á þeim tíma sem sögunum var safnað, nánar tiltekið seint á 19.öld og snemma á 20.öld.

„Ég ákvað að að heimsækja aftur þjóðsagnirnar okkar útfrá nýjum hugmyndum. Ég talaði annars vegar um konur sem fóru gegn þáríkjandi samfélagsreglum tímabundið og svo þær sem brutu reglurnar til lengri tíma,“ segir Dagrún en hún lauk nýlega við doktorsvörn sína sem rannsakaði konur, kvenleika og kynjuð valdatengsl í íslenskum þjóðsögum. 

Stimplaðar sem nornir

Dagrún segir þetta umfjöllunarefni tilvalið þar sem þema ráðstefnunnar er fjölbreytileiki og endurskoðun á samfélaginu út frá nýjum hugmyndum.

„Það eru til ótal þjóðsögur um konur sem er hrósað fyrir það að hafa sýnt sjálfstæði og hugrekki, svo lengi sem þær enda í sínu kvenlegu hlutverki, en langtíma uppreisn var túlkuð sem ógn og þær konur sýndar í neikvæðu ljósi.“

„Þessar konur voru oft stimplaðar sem galdrakonur eða nornir, eins og til að útskýra hvers vegna kona gæti sýnt af sér svo karllæga hegðun en svo dæmi sé tekið þá er Stokkseyrardísin oftast sýnd í neikvæðu ljósi í þjóðsögunum.“ Dagrún segir langflestar sögur um nornir hafa þann tilgang að veikja stöðu þeirra kvenna sem komust í karllægar stöður í samfélaginu. 

Í fyrirlestri sínum telur hún upp nokkrar sögur af konum sem börðust móti þáríkjandi hugmyndum um hvað þótti kvenlegt.

„Meðal þeirra sagna er ein um unga stúlku sem fer á fjöll í leit af kindum föður síns sem útilegumenn höfðu stolið. Faðir hennar hikar fyrst við að hleypa henni í svo karllægt hlutverk en hugrekki hennar er hrósað þar sem sagan endar á því að hún giftist einum fanga útilegumannanna.“

Dagrún segir það ljóst mál að konur í þjóðsögum máttu fagnandi brjóta gegn kynjahlutverkum og sýna hugrekki, svo lengi sem þær gengu aftur í sín kvenlegu hlutverk og tækju aftur við kvenleikanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka