Allur farangur úr Icelandair flugvél týndur

Enginn farangur skilaði sér úr vél Icelandair sem lenti í …
Enginn farangur skilaði sér úr vél Icelandair sem lenti í Amsterdam. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegar um borð í flugvél Icelandair lentu í því óhappi að fá ekki töskurnar sínar afhendar þegar vélin lenti í Amsterdam í Hollandi í gær. Farþegar hafa engin svör fengið frá Icelandair.

„Það komu engar töskur, enginn úr vélinni fékk töskuna sína. Ég held að þetta séu um 200 töskur sem skiluðu sér ekki, þannig að það er mjög góð spurning hvar töskurnar okkar eru og hvenær við fáum þær, við bara vitum ekki neitt,“ segir Lilja Björk Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is.

Vélin lenti klukkan hálf fjögur í gær og farþegar biðu í einn og hálfan tíma eftir töskunum sem komu svo ekki. „Allt í einu var sagt að allar töskur frá Reykjavík væru komnar og fólk klóraði sér í hausnum og skildi ekkert af því að enginn var búinn að fá töskuna sína,“ segir Lilja.

„Þá fórum við að kanna málið og þeir á vellinum vissu ekki hvað varð um töskurnar og fólki var orðið ansi heitt í hamsi. Fólk var með mikilvæg lyf í töskunum sem þau þurftu nauðsynlega að fá og sumir voru að stoppa mjög stutt hérna í Hollandi og þurftu að fara áfram.“

Maður með rándýra lyfjasprautu

Segir Lilja að Icelandair hafi ekki gefið nein svör þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hópsins til að reyna að ná sambandi við flugfélagið. „Við erum búin að reyna að hringja í þau og senda þeim póst og það svarar okkur enginn.“

Lilja er stödd í Hollandi með fjölskyldu sinni þar sem þau ætla að vera í tvær vikur. „Við vorum að hitta ellefu manna hóp úr vélinni og allir eru að ræða saman.“

„Einn maður var með rándýra lyfjasprautu sem hann þarf nauðsynlega á að halda sem skemmist á sólarhring og kostar um 200 þúsund sögðu þau, þannig að þetta er mikill skaði.“

Lilja ásamt börnum sínum Auði Hörpu og Guðmundi Ara í …
Lilja ásamt börnum sínum Auði Hörpu og Guðmundi Ara í Hollandi. Ljósmynd/Aðsend

Allir ansi fúlir

Farþegar biðu á flugvellinum í þrjár og hálfa klukkustund í von um að fá einhver svör án árangurs. „Þeir á flugvellinum sögðu okkur bara að fylla út pappíra og að við munum fá töskurnar sendar en við heyrum ekkert. Það er kominn einn og hálfur sólarhringur,“ segir Lilja.

„Það eru allir ansi fúlir að vera ennþá í skítugum fötum og fá ekki töskurnar sínar og enginn vill gefa nein svör. Við sjáum fram á að þurfa að fara á morgun og versla okkur ný föt.“

Lilja segir að hópurinn muni halda áfram að reyna að ná sambandi við Icelandair. „Það er mjög skrýtið að um 200 töskur séu týndar og enginn heyrir neitt. Ég bara vona að við fáum töskurnar okkar,“ segir hún að lokum.

Uppfært 22. júní kl. 10:11

Verið er að vinna að því að koma far­angri í hend­ur þeirra farþega sem ferðuðust með Icelanda­ir til Amster­dam í Hollandi í fyrra­dag. All­ur far­ang­ur­inn fór þó með flug­vél­inni til Amster­dam að sögn sér­fræðings á upp­lýs­inga­sviði Icelanda­ir. 

Sett hef­ur verið í for­gang að hafa upp á öll­um farþegum sem hafa ekki fengið tösk­urn­ar sín­ar í hend­urn­ar, að sögn Guðna Siguðssonar, sérfræðings á upplýsingasviði. Hann get­ur þó ekki áætlað hve lang­an tíma það mun taka. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka