Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ og Þráinn Farestveit varaformaður sitja áfram í stjórn félagsins.
„Það voru stjórnarskipti og alls komu sextán nýir inn í stjórn og það var allt okkar fólk sem fór inn, þetta var í raun bara hreinn sigur,“ segir Anna Hildur.
Aðalfundur SÁÁ fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í kvöld þar sem kosið var í stjórn félagsins auk þess sem kynning á meðferðarstarfinu fór fram. „Það gengur allt rosalega vel,“ segir Anna Hildur.
„Það var verið að kjósa með breytingum í raun og veru og það var það sem var valið; breytingar fram undan. Við stefnum á breytingar og meiri samvinnu og samtal. Við erum í innri vinnu og þurfum að halda því áfram. Við erum að skoða okkar starf og hver framtíðarsýn SÁÁ er, en við erum trú grasrótinni,“ segir hún.
„Þetta eru náttúrlega stærstu almannaheillasamtök á landinu með yfir sex þúsund félagsmenn, þannig að skyldur okkar eru miklar og ábyrgðin mikil. Það eru gerðar miklar kröfur til okkar, við rekum heilbrigðisþjónustu og þurfum bara að vinna eftir því.“