Bílastæðagjöld fyrirhuguð við Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur á Síðu.
Fjaðrárgljúfur á Síðu. Ljósmynd/Gísli Sigurðsson

Verið er að ganga frá kauptilboði félagsins Hveraberg ehf. í jörðina Heiði í Skaftárhreppi þar sem Fjaðrárgljúfur er að finna og nemur kaupverðið 280 milljónir króna.

Samkvæmt frétt Kjarnans hyggst nýi eigandinn taka „hófleg bílastæðagjöld“ og munu tekjurnar renna til uppbyggingar þjónustu, reksturs og innviða á svæðinu en til stendur að opna þjónustumiðstöð á jörðinni þar sem gestir geta sótt verslanir, veitingaþjónustu og salernisaðstöðu.

Þetta kom fram í samkomulagi við Umhverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytið en þar er jafnframt tekið fram að gjöldin skuli ekki verða til þess að skerða eða tálma ferðir einstaklinga sem ekki nýta bílastæðið á svæðinu, samkvæmt reglum náttúruverndarlaga um almannarétt.

Eins og greint var frá fyrr í dag féll íslenska ríkið frá forkaupsrétti jarðarinnar en Hveraberg og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is- orku- og lofts­lags­ráðherra, hafa und­ir­ritað sam­komu­lag um að vinna að friðlýs­ingu svæðis­ins. 

Þá hafa eigendur annarra jarða sem Fjaðrárgljúfur er hluti af lýst yfir vilja til að vinna að friðlýsingu þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert