Ekki koma í heimsókn með einkenni

Samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila biðlar til aðstandenda að koma ekki …
Samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila biðlar til aðstandenda að koma ekki í heimsókn með einkenni Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila hefur ákveðið að setja fjögur atriði í leiðbeiningar til til hjúkrunarheimila, dagdvala og velferðarfyrirtækja í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Þetta segir Sigurjón Norberg Kjærnested, framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að hópurinn ákveði sameiginlega hvaða leiðbeiningar hann gefi út en síðan séu það einstaka hjúkrunarheimili, dagdvalir og velferðarfyrirtæki sem að útfæra leiðbeiningarnar og ákveða sjálf takmarkanir.

Setja kraft í bólusetningar

Í fyrsta lagi var ákveðið að setja allan kraft í bólusetningar með fjórða skammti bóluefnis fyrir alla íbúa hjúkrunarheimila. „Það er ákaflega mikilvægt að við náum að klára fjórðu bólusetninguna,“ segir Sigurjón.

Næsta atriði er að sögn Sigurjóns að hvetja til þess að allir séu vakandi fyrir einkennum Covid-19 og að gestir passa sig að vera ekki með einkenni sýkingar innan um aldraða.

„Það sem það þýðir í raun og veru er að þú átt ekki að koma í heimsókn á hjúkrunarheimili ef þú ert með einkenni sem að geta bent til Covid,“ segir Sigurjón og bætir við: „Það er í rauninni takmörkunin sem við erum að boða núna.“

Hjúkrunarheimili geta gripið til takmarkana

Í þriðja lagi getur hvert og eitt hjúkrunarheimili ákveðið að grípa til frekari takmarkana á heimsóknum eða grímuskyldu ef þau meta sem svo að þörf sé á því.

„Þá eru þau að horfa á hluti eins og smit á sínu svæði og á stöðu bólusetninga og fleira en það er í rauninni undir hverju og einu hjúkrunarheimili hvort að þau ganga lengra á þennan hátt,“ segir Sigurjón.

Loks setur samráðshópurinn ofuráherslu á sýkingavarnir. „Það er ákaflega mikilvægt núna að muna eftir handþvotti, persónulegu hreinlæti, loftræstingu og að halda öllu umhverfi sóttreinsuðu eins og mögulegt er,“ segir Sigurjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka