Ekki þekktur fyrir að tala mikið

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, talaði mest allra á nýafstöðnu vorþingi, eða í 1.014 mínútur. Þá var hann einnig ræðukóngur árið 2018.

Hann segist, í samtali við mbl.is, yfirleitt ekki vera þekktur fyrir að tala neitt voðalega mikið. „Er þetta ekki bara öllum öðrum kenna að mæta ekki upp í ræðustól Alþingis og taka þátt?“ bætir hann við.

Þá segir hann ræðutímann hafa mikið með verkaskiptingu innan þingflokksins að gera og hverjir séu á þingvöktum. Hann hafi verið í forsætisnefnd og því fylgi að fara í þingsal og að fylgja oft eftir fleiri málum en aðrir. Í rauninni snúist þetta um þingsalsvaktina sem slíka.

Eins og stigaforskot í Eurovision

„Þetta er svona eins og í Eurovision-keppninni. Það eru sum lönd sem eru með stigaforskot út af nágrannaatkvæðum,“ segir Björn Leví og bendir á að á Alþingi séu sumir í nefndum sem mörg mál koma frá og þurfa þá sjálfkrafa að fylgja eftir fleiri málum

Björn Leví tekur sérstaklega fram að ekki hafi verið um sjálfstætt markmið að ræða. Hann hafi óvart verið með mesta ræðutíma fyrir fjórum árum því Helgi Hrafn, fyrrverandi þingmaður Pírata, fór í fæðingarorlof og þá gat hann ekki annað en farið fram úr honum.

Þá segist hann halda að Gísli Rafn Ólafsson, félagi hans í Pírötum, taki þetta næst. Hann hafi ýmislegt að segja og sé nú kominn með reynsluna á því hvernig þetta virkar allt saman. En Gísli talaði næstmest allra á þinginu, eða í 912 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert