Góð mæting er á fund landeigenda í Reynisfjöru sem nýlega var settur í Leikskálum í Vík. Þar verður fundað um hvernig auka megi öryggi þeirra sem heimsækja fjöruna sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.
Á síðustu sjö árum hafa fimm einstaklingar látist í fjörunni og viðbragðsaðilar farið í tólf útköll þar sem fólk var hætt komið.
Áður en fundurinn hófst voru fjölmiðlar beðnir um að yfirgefa salinn og sömuleiðis þeir sem ekki eru landeigendur.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri stýrir fundinum en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, er einnig viðstödd þar sem ráðuneyti hennar fer með málefni ferðaþjónustunnar.
Þá er Einar Freyr Elínarson nýr sveitarstjóri Mýrdalshrepps einnig á staðnum ásamt fulltrúum lögreglunnar á Suðurlandi.