Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk

Undirritunin fór fram á Kjarvalsstöðum.
Undirritunin fór fram á Kjarvalsstöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viljayfirlýsing um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk var í dag undirrituð á Kjarvalsstöðum þar sem kveðið er á um aukið samstarf og samvinnu varðandi málefni eldra fólks með það að markmiði að tryggja samhæfða þjónustu við hæfi, á réttu þjónustustigi og á réttum tíma.

Á þetta bæði við um stuðningsþjónustu á vegum sveitarfélagas og heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins, að því er fram kemur í tilkynningu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Það voru þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Helgi Pétursson, formaður Landsambands eldri borgara, sem undirrituðu yfirlýsinguna.

Í tilkynningunni segir einnig að skipuð hafi verið verkefnastjórn sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila, forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Síðar meir skal verkefnastjórinn vinna að innleiðingu og framkvæmd aðgerðaáætlunar.

Þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja þannig betri þjónustu við stækkandi þjóðfélagshóp meðal annars með samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert