Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um einstakling sem gengi um í fjörunni í Kópavogi. Óttaðist tilkynnandi að viðkomandi væri jafnvel í sjálfsvígshugleiðingum.
„Svo reyndist ekki vera, að minnsta kosti ekki í hefðbundnum skilningi, en viðkomandi kvaðst búa nærri fjörunni og kæmi gjarnan þangað til að reykja. Er nokkuð ljóst að slíkt hátterni er síst til þess fallið að lengja líf þeirra er það stunda, en flokkast þó ekki sem lögreglumál,” segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Tilkynnt var um tvö innbrot í austurborginni. Annars vegar í verslun og hins vegar í fyrirtæki. Nokkrum fjármunum var stolið ásamt fartölvu.
Einn ökumaður var jafnframt stöðvaður í morgunsárið fyrir akstur undir áhrifum áfengis.