Sextíu og tvær kanínur úr Elliðaárdalnum hafa nú fengið skjól vegna tilraunaverkefnis sem Dýrahjálp Íslands, Villikanínur og Dýraþjónusta Reykjavíkur standa á bak við. Kanínurnar voru veiddar og þeim veitt skjól þar sem lífskjör eru slæm í dalnum en borgin hefur unnið að verkefninu síðan í nóvember. Markmiðið með verkefninu er fyrst og fremst að finna gott heimili fyrir kanínurnar og veita þeim betra líf.
„Það eru ýmsar hættur sem þessar kanínur glíma við. Svo dæmi sé nefnt eru annars vegar bílar fyrir ofan dalinn og hins vegar hjólastígur fyrir neðan hann. Þetta skapar hættu fyrir bæði fólk og kanínur. Dýrin í kring eru líka ákveðin hætta við kanínurnar en þær eru t.d. í mikilli samkeppni við gæsirnar um mat á svæðinu og svo tekur mávurinn mikið af kanínuungum á sumrin,“ segir Gréta Sóley Sigurðardóttir, verkefnastjóri og sjálfboðaliði hjá Dýrahjálp Íslands og Villikanínum, í viðtali við Morgunblaðið.
Gréta segir þetta vandamál sem herji á menn jafnt sem dýr, en Reykjavíkurborg hefur borist töluverður fjöldi kvartana undan kanínum sem eyðileggja gróður og margir segja þær trufla umferð. Meðalaldur kanína sem fæðast og lifa inni er 12-14 ár en Gréta tekur fram að elsta kanínan sem þau fylgdust með í Elliðaárdal hafi aðeins náð tveggja ára aldri og meðalaldurinn sé mun lægri.
Hægt er að sækja um hjá Dýrahjálp.is sem annars vegar fósturheimili fyrir kanínur og hins vegar sem framtíðarheimili.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.