Jónas Fr. Jónsson, lögmaður hjónanna sem krafin voru um þóknun vegna uppgreiðslu á húsnæðisláni, segist ánægður með ákvörðun Hæstaréttar um að taka málið til meðferðar og telur að það sé prófsteinn á réttindi neytenda.
„Ég er ánægður fyrir hönd minna umbjóðenda,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.
Málið varðar uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs og telur Hæstiréttur það hafa fordæmisgildi fyrir fjölda neytenda sem tók lán með sambærilegum skilmálum.
„Ég tel að þetta mál sé prófsteinn á réttindi neytenda og þær kröfur sem gerðar eru til lánastofnana um upplýsingaskyldu og vönduð vinnubrögð,“ segir Jónas.
Sjóðurinn var sýknaður í Landsrétti af kröfum hjónanna Maríu og Ólafs um endurgreiðslu gjaldsins og ekki var fallist á að upplýsingaskylda lánveitanda næði til uppgreiðslugjaldsins. Umsókn hjónanna um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar hefur nú verið samþykkt.