Vegagerðin og Sæferðir funduðu vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs í morgun. Til stendur að rætt verði saman aftur í næstu viku.
Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða, er nú fyrst og fremst rætt um þá möguleika sem eru í stöðunni varðandi siglingar Baldurs í vetur. Baldur var á reki um 300 metra frá landi í rúmar fimm klukkustundir á laugardaginn, en ferjan hefur ítrekað bilað á síðustu árum.
Gunnlaugur segir að meðal annars sé verið að ræða hvort hægt sé að gera eitthvað annað en að sigla Baldri á þessu svæði. „Allir eru sammála því að staðan er ekki góð. Þótt það hafi ekki verið hætta á ferðum á laugardaginn, þá er þetta ekki góð staða.“
Stefnt er að því að Herjólfur III taki við siglingum á Breiðafirði haustið 2023. Gunnlaugur bendir á að Sæferðir hafi skrifað undir samning fyrir fimm mánuðum síðan um að sigla Baldri fram að því.
„Frá þeim tíma sem við skrifuðum undir samninginn hefur verið gert alveg gríðarlega margt um borð í skipinu til batnaðar en við höfum svo sem alltaf sagt að öryggið er eins og það best verður á kosið, björgunarbúnaður, öryggisæfingar og reynsla, geta og þekking áhafnar,“ segir Gunnlaugur og bætir við:
„En það voru kannski aðrir þættir sem þurfti að taka til í. Við tókum það mjög alvarlega og tókum það til okkar. Það sneri fyrst og fremst að umgengni, þrifnaði og slíku um borð. Við höfum farið í það og gert alls konar úrbætur síðan við fengum fréttaskýringarþáttinn til okkar í vetur,“ segir Gunnlaugur en Kveikur heimsótti Baldur fyrr á árinu.
Gunnlaugur bendir á að Sæferðir hafi lengi unnið með Vegagerðinni. „Við vitum það að í kjölfar umfjöllunarinnar í vetur þá brast traust þar á milli. Við gerum okkur grein fyrir því, við tókum það til okkar og vitum að það er okkur að kenna.“