Sara Rós Kristinsdóttir, stofnandi fræðslufyrirtækisins Lífsstefnu, greindist bæði einhverf og með ADHD eftir þrítugt en hún segir, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins, að það að fá greiningarnar hafi breytt lífi hennar og orðið til þess að hún sýndi sjálfri sér meira sjálfsmildi.
Söru hafði lengi grunað að hún væri með athyglisbrest en hún fór ekki að spá í einhverfunni fyrr en síðar en hún fór í skimun fyrir einhverfu fyrir um ári.
„Ég var ekkert að spá mikið með einhverfuna. Ég tengdi ekki við allt í henni fyrr en ég fór að fylgja öðru fólki á samfélagsmiðlum. Þá allt í einu var ég bara: Vá! Þetta útskýrir allt lífið mitt. Ég bjóst ekki við að ég myndi tengja svona mikið við það.
Þetta útskýrði æskuna mína. Alls konar félagsleg samskipti sem ég átti í erfiðleikum með sem ég var ekki búin að skilja hjá sjálfri mér,“ segir Sara Rós sem útskýrir að hún hafi verið orðinn sérfræðingur í að „maska“ eða fela einkenni einhverfunnar og athyglisbrestsins en það er einmitt mjög algengt hjá stúlkum og konum sem greinast oft mun síðar á lífsleiðinni en karlmenn og drengir.
„Ég held að fólk trúi ekki endilega að ég sé einhverf af því að það er með þessa ákveðnu týpu í huga – sem er svo fjarri sannleikanum. En fjölskyldan mín var ekki hissa,“ segir Sara Rós sem hefur mikla ástríðu fyrir því að fræða fólk um geðheilbrigði, einhverfu, ADHD og fjölbreytni mannflórunnar og gerir það meðal annars í gegnum samfélagsmiðla eins og Instagram og Facebook, sjálfseflandi námskeið og sérhannaðar vörur fyrir skynsegin börn og fullorðna. Sjálf á hún tvo einhverfa drengi sem einnig eru með ADHD og vonast til að geta komið þeim skilaboðum áfram að við erum öll mismunandi og ekki steypt í sama mót.