Davíð Þór Björgvinsson fyrrverandi dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, telur sennilegt að vafi um styrkleika tveggja umsækjenda Íslands, af þremur, hafi valdið því að þeir drógu umsókn sína um dómaraembætti við MDE til baka.
Hæstaréttarlögmennirnir Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson hafa dregið til baka umsóknir sínar til embættis dómara við MDE en Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands, mun enn sækjast eftir embættinu. Þetta herma heimildir mbl.is, en Rúv greindi fyrst frá að umsóknir hafi verið dregnar til baka.
Kjósa átti nýjan íslenskan dómara við dómstólinn á þingi Evrópuráðsins í þessari viku, en hefja verður umsóknarferlið að nýju í ljósi ákvarðana Jónasar Þórs og Stefáns Geirs.
„Staðan er auglýst innanlands og innlend nefnd metur umsækjendur, en það voru bara þrír umsækjendur og Ísland þarf að skila inn lista með þremur kandidötum til Evrópuráðsins,“ segir Davíð Þór.
Í Evrópuráðinu fari listinn í gegnum mat sérfræðinefndar á því hvort listinn sé löglegur. „Um það gilda ýmsar reglur, allir þurfa að vera ótvírætt hæfir, það þarf að vera minnst ein kona og kandidatar þurfa að uppfylla skilyrði til að gegna æðstu dómarastöðum heima fyrir svo eitthvað sé nefnt“
Sterkasti umsækjandi Íslands að þessu sinni var Oddný Mjöll, að mati Davíðs Þórs. Aðspurður hvort það sé ekki sérstakt að svo fáir hafi sótt um stöðuna segir hann að ef til vill hafi einhverjir haldið að sér höndum þegar það fór að spyrjast út að hún ætlaði að sækjast eftir embættinu.
Þá bendir hann á að þegar Róbert Ragnar Spanó, núverandi dómari Íslands við dómstólinn og jafnframt forseti dómstólsins, var kosinn, hafi umsækjendurnir aðeins verið þrír, eins og nú. Einn þeirra var raunar Oddný Mjöll.
„Það var mjög sterkur listi frá Íslandi á þeim tíma, en í þessu tilviki er hann ef til vill ekki jafn sterkur að því leyti að þeir Jónas Þór og Stefán Geir hafa ef til vill ekki mikla reynslu af sáttmálanum, án þess að ég viti það fyrir víst, þótt þeir séu annars mætir lögfræðingar.“
Niðurstaða nefndarinnar hér á land var sú að Jónas Þór, Stefán Geir og Oddný Mjöll væru öll hæf og voru þau tilnefnd af forsætisráðherra í kjölfarið.
Því næst tók Evrópuráðið við listanum og hann var metinn af sérfræðinefnd auk þess sem frambjóðendur voru teknir í viðtöl af þingnefnd ráðsins.
Þau viðtöl fóru fram í byrjun júní í París. Í kjölfar þeirra drógu Jónas og Stefán umsóknir sínar til baka.
„Það sem mér finnst líklegast að hafi gerst er að það hafi verið viðraðar, annaðhvort af sérfræðinefndinni, þingnefndinni eða báðum, efasemdir um það hvort allir umsækjendur væru nægilega sterkir og þeim, sem vafi lék á um, hafi þá verið gefinn kostur á að draga umsókn sína til baka, eða þeir sjálfir að loknu viðtalinu metið það svo að það yrði á brattann að sækja fyrir þá“
Davíð Þór setur þó þann fyrirvara að hann hafi ekki beina vitneskju um hvað hafi átt sér stað, enda ríki um þetta trúnaður og því um að ræða vangaveltur af hans hálfu.
Þótt þetta hafi ekki áður gerst í tilviki Íslands hefur þetta komið upp hjá öðrum ríkjum að sögn Davíðs. „Það hefur alveg komið upp að lista er hafnað ef það þykir vafasamt hvort allir kandídatarnir á honum fullnægi skilyrðunum. Þetta gerist reglulega og hér er að því leyti ekki nein stórtíðindi að ræða.“
Hann lýsir viðtalinu hjá þingnefndinni sem „þriðju gráðu yfirheyrslu“ þar sem umsækjendum er gert að sýna fram á að þeir hafi þekkingu á mannréttindasáttmálanum og dómaframkvæmd dómstólsins.
Kröfurnar sem gerðar eru til umsækjenda eru töluverðar. Þá eru gerðar ríkar kröfur til tungumálakunnáttu umsækjenda, einkum þegar kemur að ensku og frönsku sem eru vinnutungumál dómstólsins.
Umsækjendur þurfa einnig að vera hæfir til að gegna æðstu dómarastörfum heima fyrir. „Þeir uppfylla það skilyrði í sjálfu sér, allir kandídatarnir.“
Davíð sér fyrir sér að það verði erfitt að fá tvo, ótvírætt hæfa einstaklinga til að sækja um og taka sæti á listanum.
„Allir, sem til þekkja vita að Oddný Mjöll, sem er ein eftir á listanum eins og staðan er nú, er mjög sterkur kandídat.“