Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra telur blandað eignarhald á náttúruperlum Íslands æskilegast.
„Ríkið hefur komið inn og keypt ákveðnar náttúruperlur og sumar þeirra hafa verið friðlýstar. Ég held að það geti verið ávinningur í því að einkaaðilar komi líka inn í þessa mynd.“
Fjaðrárgljúfur var nýlega selt í hendur einkaaðila, en ríkið kaus að nýta ekki forkaupsrétt sinn að gljúfrinu. Þá hafa hinir nýju eigendur kynnt áform um að koma á fót bílastæði við gljúfrið og heimta bílastæðagjöld.
„Við þekkjum staði þar sem hefur verið hófleg gjaldtaka en sterkir innviðir og staðirnir verða jafnvel eftirsóttari fyrir vikið.“
Hófleg gjaldtaka er að mati Lilju bæði réttlætanleg til þess að styrkja innviði, og gott stýritæki, svo lengi sem það hindrar ekki möguleika Íslendinga til þess að njóta íslenskrar náttúru.
Hún telur að með uppbyggingu bílastæða við gljúfrið sé verið að fjárfesta í innviðum. „Það þarf að fjárfesta í þessum stöðum svo ég held að það geti verið farsælt.“
Þá bendir Lilja á að Ísland sé í raun og veru „uppselt“ í sumar.