Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út klukkan tuttugu mínútur í átta í morgun eftir að skotið var á bíl við Miðvang í Hafnarfirði. Byssumaðurinn er enn inni í íbúð sinni sem er í blokk við Miðvang 41. Ekki er ljóst hvort hann sé einn þar inni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu.
„Engan sakaði í morgun, en ljóst er að mikil hætta var á ferð og var sérsveit ríkislögreglustjóra strax kölluð til vegna alvarleika málsins,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem barst um klukkan hálf ellefu í morgun.
Skýrslutaka yfir eiganda bílsins sem skotið var á stendur yfir. Mynd frá vettvangi sýnir að rúða í bílnum er brotin. Lögreglan vill ekki tjá sig um það hvort eigandi bílsins hafi verið staddur í bílnum þegar á hann var skotið en bifreiðin var þá kyrrstæð. Hún var stödd sunnan megin við blokkina, að sögn lögreglu.
„Þar eru bifreiðastæði, en gegnt húsinu er leikskóli. Aðgerðir lögreglu á vettvangi standa enn yfir, en starfsfólki og börnum á leikskólanum hefur verið gert að halda sig innandyra á meðan á þeim stendur og þá hefur verið lokað fyrir alla umferð um hluta Miðvangs,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.
Dróni á vegum lögreglu er á ferð yfir svæðinu að skoða bygginguna og fjölgaði sérsveitarmönnum þar um klukkan tíu í morgun. Drónanum hefur verið flogið hátt yfir blokkinni.
Sjónarvottar sem mbl.is hefur rætt við segja að skothvellir hafi heyrst í blokkinni við Miðvang 41 um klukkan sjö í morgun. Íbúar eru enn í húsinu sem hefur ekki verið rýmt en lögregla sér til þess að fólk haldi sig í íbúðum sínum. Þá eru í og við blokkina fjölmargir lögreglu- og sérsveitarmenn.
Verslunin Nettó er á neðri hæð blokkarinnar og hefur henni verið lokað en starfsfólk verslunarinnar er enn þar inni.
Fréttin er í vinnslu