Engar merkingar eða varnir þar sem banaslys varð

Miklar framkvæmdir eru á hafnarsvæðinu á Djúpavogi um þessar mundir.
Miklar framkvæmdir eru á hafnarsvæðinu á Djúpavogi um þessar mundir. mbl.is/Sigurður Bogi

Miklar framkvæmdir eru í gangi á hafnarsvæðinu á Djúpavogi, þar sem banaslys átti sér stað í gær, þegar erlendur ferðamaður, karlmaður á sjötugsaldri, varð fyrir lyftara. Stýring gangandi umferðar var ekki til staðar á svæðinu og merkingum var ábótavant, þar sem talið var að þær myndu þrengja svæðið og jafnvel skapa enn meiri hættu.

Strax var hafist handa við úrbætur í kjölfar slyssins í gær. Þetta staðfestir Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings, í samtali við mbl.is.

„Það er millibilsástand, það er svo mikið í gangi á ytri og innri höfninni. Í innri höfninni, inni í Gleðivík, er verið að byggja kassaverksmiðju, grafa skurði og leggja lagnir til og frá. Í ytri höfninni er verið að endurnýja stálþil, þannig það er mjög mikið í gangi. En klárlega má gera betur í merkingum og öryggismálum, það er alveg rétt,” segir Eiður.

Mikil umferð ferðamanna um svæðið

Samkvæmt heimildum mbl.is átti slysið sér stað á stíg sem liggur meðfram sjónum frá höfninni þar sem löndun fór fram. Lyftarinn var að flytja fisk í körum frá höfninni.

Mikil umferð ferðamanna er um svæðið, þar sem listaverk Sigurðar Guðmundssonar, Eggin í Gleðivík, sem staðsett er í innri höfninni, hefur mikið aðdráttarafl.

Eggin í Gleðivík.
Eggin í Gleðivík. mbl.is/Freyr

„Þar sem þetta tiltekna slys gerðist, þar er mikil umferð ferðamanna og vinnuvéla; steypubíla, það er verið að landa fiski líka. Laxeldið er með umfangsmikla starfsemi og þarf að færa sitt dót til og frá, þannig að það er mikið í gangi. Það er þó engin afsökun en það er ein af mörgum orsökum þessa hörmulega slyss.”

Úrbætur þegar hafnar

Eiður segir það hafa verið í vinnslu að setja upp stýringar á gangandi umferð en það hafi ekki verið gert þar sem lagnaframkvæmdum í tengslum við kassaverksmiðjuna var ekki lokið.

„Það var mikið ólán að þetta skyldi þurfa að gerast áður en það var komið upp,” segir Eiður.

Í fyrra hafi verið settar upp stýringar, sem hafi reynst misvel, en vissulega gert eitthvert gagn.

„Það var búið að skipuleggja endurbætur á þeim, en það var meðvituð ákvörðun hjá mér og starfsmönnum áhaldahússins að bíða með þær þar til væri búið að loka öllum skurðum. Annars þrengdi svo mikið að, bæði verktökunum sem eru að vinna, akandi umferð og gangandi umferð. Við töldum það auka hættuna að setja upp varnir áður en búið væri að loka öllu. Það hefði þrengt svæðið meira.“ 

Vinna við merkingar og stýringar hófst strax í gær að hans sögn. Vinnu við að loka skurðunum verður einnig flýtt eins og hægt er. „Við reynum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt geti átt sér stað aftur,“ segir Eiður.

„Það er er samt sem áður hörmulegt að eitthvað svona þurfi að gerast til að við bregðumst við. Við töldum okkur vera að gera þetta á réttan hátt en svo sýnir þetta annað,“ bætir hann við.

Veruleikinn annar þegar listaverkið fór upp

Líkt og áður sagði hafa Eggin í Gleðivík mikið aðdráttarafl, sem skapar mikla umferð um svæði þar sem er töluverð slysahætta. Þegar listaverkinu var valin staðsetning, var veruleikinn á Djúpavogi hins vegar allt annar og aðstæður ólíkar þeim sem þar eru í dag.

Eggin í Gleðivík.
Eggin í Gleðivík. mbl.is/Freyr

„Þegar þessu listaverki var komið fyrir á sínum tíma, voru aðstæður allt aðrar. Þá var nýbúið að loka bræðslunni og Vísir farinn með alla sína starfsemi, þannig það var ekkert í gangi hérna. Það var því fullkomlega eðlilegt að koma þessu fyrir þarna á þeim tíma, eins og aðstæður voru þá. Síðan hafa bara hlutirnir breyst og nýr veruleiki tekinn við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert