Gæti tekið þrjú ár að vinna úr máli Margeirs

Margeir Ingólfsson segir að mál hans þar sem bifreið keyrði …
Margeir Ingólfsson segir að mál hans þar sem bifreið keyrði á hann gæti tekið þrjú ár í vinnslu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er eitthvað í þessu kerfi sem er mjög brotið og það að þeir skildu ekki sækja manninn strax og að minnsta kosti taka af honum prófið tímabundið er óskiljanlegt,“ segir Margeir Ingólfsson, betur þekktur sem DJ Margeir, í samtali við mbl.is.

Fjórða júní var ekið aftan á Margeir þegar hann hjólaði niður Laugaveginn. Samkvæmt Margeiri og vitnum á staðnum þandi ökumaður vél bifreiðar sinnar og flautaði á Margeir sem hjólaði á umferðarhraða fyrir framan bílinn. Bíllinn keyrði þá aftan á Margeir með þeim afleiðingum að hann datt í götuna. Þá keyrði ökumaðurinn yfir reiðhjól Margeirs og flúði af vettvangi og keyrði niður göngugötu.

Margeir var á mánudaginn að fá í fyrsta skipti upplýsingar frá lögreglu um framvindu málsins, sem átti sér stað fyrir meira en tveimur vikum síðan. Árásamaðurinn hefur ekki verið handtekinn. Málið er að sögn Margeirs rannsakað sem afstunga og að lífi og líkama hafi verið stofnað í hættu.

„Stóra myndin er sú að þetta mun að öllum líkindum taka langan tíma. Gæti tekið allt að þremur árum að fara í gegn. Ég átta mig á því að það geta verið meira aðkallandi mál sem lögreglan þarf að sinna en þetta er rosalega langur tími.

Reiðhjól Margeirs var mikið skemmt eftir árásina.
Reiðhjól Margeirs var mikið skemmt eftir árásina. Ljósmynd/Aðsend

Ástæðan fyrir því að það er ekki gert meira úr málinu virðist fyrst og fremst vera sú að ég slepp tiltölulega óskaddaður frá þessu. Samt sem áður eru öll þessi vitni til staðar auk þess að árásin virðist hafa náðst í gegnum öryggismyndavélar. Þau er vitað hver árásarmaðurinn er,“ segir Margeir.

Áverkavottorð eftir þrjá mánuði

„Þau [lögreglan] lögðu mikla áherslu á að ég myndi fá áverkavottorð, sama hvað. Jafnvel þó ég væri bara með litla skrámu. Þegar ég spyr hvar ég fæ svoleiðis benda þau á heilsugæsluna. Þegar ég talaði við heilsugæsluna, þá buðu þau mér tíma í lok ágúst. Þegar ég ítrekaði að um væri að ræða áverkavottorð sem væri vont að bíða mikið með, þá buðu þau mér að hringja nokkrum dögum síðar til að fá símatíma hjá lækni. Áverkavottorð í gegnum símatíma?“ spyr Margeir furðu lostinn.

„Þetta er mjög kómískt og ég er ekki einn um að finnast það. Ég endaði bara á því að fara á Læknavaktina og borgaði því aukalega fyrir að komast að, því ég fæ ekki tíma hjá lækni fyrr en eftir þrjá mánuði. Ætli þetta sé ekki ákveðið form á einkavæðingu heilbrigðiskerfisins án þess að það hafi átt sér stað nokkuð samtal.

Ég tek þessu bara á húmornum en ég ætla alla vega að fylgja þessu máli eftir, hvernig sem það verður,“ segir Margeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka