Íbúar Miðvangs rólegir þrátt fyrir allt

Lögreglumaður við bifreiðina sem var skotið á í dag.
Lögreglumaður við bifreiðina sem var skotið á í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar í fjölbýlishúsinu við Miðvang 41, sem mbl.is ræddi við fyrr í dag, áttu það flestir sameiginlegt að vera rólegir, jafnvel þó að í húsinu dveldi maður sem grunaður var um að hafa skotið á kyrrstæða bifreið fyrr um morguninn.

Maðurinn var handtekinn í kringum hálf eitt í dag.

Sigurlaug Jóna Guðmundsdóttir var sofandi þegar skotunum var hleypt af. Þegar hún vaknaði um morguninn og ætlaði að sækja dagblaðið sitt, tók á móti henni óvænt sjón.

Frá Miðvangi. Sérsveitin mætti á staðinn í morgun og viðbúnaður …
Frá Miðvangi. Sérsveitin mætti á staðinn í morgun og viðbúnaður var mikill. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fór að sækja dagblaðið og þegar lyftan opnaðist, þá voru þar tveir lögreglumenn sem réttu mér dagblaðið,“ segir Sigurlaug Jóna, sem var alveg róleg yfir aðstæðunum.

Súrrealískt en gott að engan sakaði

Viktoría Sigurðardóttir var á leið í vinnu þegar lögreglu bar að garði. Hún náði að komast af stað og var því í vinnu þegar mbl.is ræddi við hana. Hún vonaðist til þess að komast heim síðar í dag.

„Þetta er náttúrlega rosalega súrrealískt, ég viðurkenni það alveg,“ sagði Viktoría sem var fegin að engan sakaði. „Af því að það er í lagi með alla, er maður miklu rólegri.“

Þórunn Jensdóttir var einnig sofandi á áttunda tímanum í morgun þegar skotunum var hleypt af. Hún var í góðum gír að fá sér hádegismat þegar mbl.is sló á þráðinn hjá henni en þá hafði sá grunaði ekki enn verið handtekinn. Hún, eins og aðrir íbúar, vonaði að úr ástandinu myndi leysast. Það hefur nú gerst, með handtöku hins grunaða, karlmanns á sjötugsaldri.

Rauði krossinn minnir á hjálparsímann

Rauði krossinn sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem minnt var á hjálparsímann 1717 og netspjallið á 1717.is.

„Það getur vakið óhug fólks þegar hættuástand eins og skapast hefur í Hafnarfirði er í gangi og við minnum því á 1717 þar sem er opið allan sólarhringinn, allan ársins hring.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka