Klárar hringferðina um landið á sjötugsaldri

Þorsteinn Eyþórsson hjólreiðagarpur.
Þorsteinn Eyþórsson hjólreiðagarpur. Ljósmynd/Aðsend

Hinn 68 ára gamli Þor­steinn Eyþórs­son á aðeins eft­ir að hjóla 17 kíló­metra til viðbót­ar áður en hann klár­ar hjóla­ferð í kring­um Vest­f­irðina sem hófst fyr­ir 10 dög­um í Staðarskála. Leiðin er í heild­ina 781 kíló­metri en Þor­steinn finn­ur þó varla fyr­ir harðsperr­um enda van­ur hjól­reiðagarp­ur. 

Hann stefn­ir á að klára ferðina á eft­ir í Borg­ar­nesi, tveim­ur dög­um á und­an áætl­un. 

„Þetta hef­ur bara gengið bet­ur en ég átti von á. Ég hef farið lengra þegar veðrið er gott og styttra þegar að það er slæmt. Það er mis­jafnt hvað ég hef farið langt,“ seg­ir Þor­steinn í sam­tali við mbl.is um ferðina.

Safn­ar fyr­ir Píeta sam­tök­in

Hvers vegna ákvaðstu að leggja af stað í þetta ferðalag?

„Það er nú þannig að ég hjólaði hring­inn í kring­um landið árið 2016 og safnaði þá áheit­um fyr­ir ADHD sam­tök­in. Vin­ur minn á Ísaf­irði benti mér á að Vest­f­irðir væru hluti af land­inu og ég væri ekki bú­inn að fara hring­inn fyrr en það væri búið. Svo­leiðis að ég er í raun­inni bara að borga það.“

Þor­steinn ákvað að safna fyr­ir Píeta sam­tök­in í ár í minn­ingu tengda­son­ar síns Árna Guðjóns­son­ar sem að lést í vet­ur. Hef­ur það gengið nokkuð vel, að sögn Þor­steins, en hann hef­ur safnað rúm­lega 1,2 millj­ón­um. Átti hann erfitt með að fara með ná­kvæma upp­hæð þegar blaðamaður spurði þar sem áheiti voru sí­fellt að bæt­ast við.

Gistu í hús­bíl

Eig­in­kona Þor­steins hef­ur fylgt hon­um um Vest­f­irðina á hús­bíl og hafa þau hjón­in gist í hon­um á meðan ferðalag­inu stend­ur. „Við erum al­veg sjálf­um okk­ur nóg,“ seg­ir Þor­steinn en bæt­ir þó við að þau hafi kíkt á nokkra veit­ingastaði á meðan ferðinni stóð.

Að sögn Þor­steins er hann í góðu lík­am­legu standi og finn­ur varla fyr­ir harðsperr­um, bara aðeins í lær­un­um. „Þetta hef­ur aðeins reynt á en það er mesta furða. Ég er bara í þokka­legu standi,“ seg­ir Þor­steinn og bæt­ir við kím­inn: „Ég er nátt­úru­lega svo korn­ung­ur.“

Þá hef­ur lítið verið um uppá­kom­ur, eitt sprungið dekk, en það gerði þó lítið til því hjón­in voru með auka­dekk og slöng­ur meðferðis.

Þarf að passa að koma ekki of snemma

Eins og áður sagði er Þor­steinn á loka kíló­metr­un­um í ferðinni núna og þarf hann að passa sig að koma ekki of snemma á loka­áfangastaðinn til að vera ekki á und­an mót­tök­un­um sem bíða hans í Borg­ar­nesi klukk­an sex. 

Var hann því í smá pásu þegar blaðamaður náði af hon­um tali. „Ég er að tímastilla núna,“ seg­ir Þor­steinn.

Áhuga­sam­ir geta lesið sig meira til um ferðina hans Þor­steins á Face­book-síðunni At­hygli, Já takk - Hjólað Vest­fjarða-hring­inn. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert