Hinn 68 ára gamli Þorsteinn Eyþórsson á aðeins eftir að hjóla 17 kílómetra til viðbótar áður en hann klárar hjólaferð í kringum Vestfirðina sem hófst fyrir 10 dögum í Staðarskála. Leiðin er í heildina 781 kílómetri en Þorsteinn finnur þó varla fyrir harðsperrum enda vanur hjólreiðagarpur.
Hann stefnir á að klára ferðina á eftir í Borgarnesi, tveimur dögum á undan áætlun.
„Þetta hefur bara gengið betur en ég átti von á. Ég hef farið lengra þegar veðrið er gott og styttra þegar að það er slæmt. Það er misjafnt hvað ég hef farið langt,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is um ferðina.
Hvers vegna ákvaðstu að leggja af stað í þetta ferðalag?
„Það er nú þannig að ég hjólaði hringinn í kringum landið árið 2016 og safnaði þá áheitum fyrir ADHD samtökin. Vinur minn á Ísafirði benti mér á að Vestfirðir væru hluti af landinu og ég væri ekki búinn að fara hringinn fyrr en það væri búið. Svoleiðis að ég er í rauninni bara að borga það.“
Þorsteinn ákvað að safna fyrir Píeta samtökin í ár í minningu tengdasonar síns Árna Guðjónssonar sem að lést í vetur. Hefur það gengið nokkuð vel, að sögn Þorsteins, en hann hefur safnað rúmlega 1,2 milljónum. Átti hann erfitt með að fara með nákvæma upphæð þegar blaðamaður spurði þar sem áheiti voru sífellt að bætast við.
Eiginkona Þorsteins hefur fylgt honum um Vestfirðina á húsbíl og hafa þau hjónin gist í honum á meðan ferðalaginu stendur. „Við erum alveg sjálfum okkur nóg,“ segir Þorsteinn en bætir þó við að þau hafi kíkt á nokkra veitingastaði á meðan ferðinni stóð.
Að sögn Þorsteins er hann í góðu líkamlegu standi og finnur varla fyrir harðsperrum, bara aðeins í lærunum. „Þetta hefur aðeins reynt á en það er mesta furða. Ég er bara í þokkalegu standi,“ segir Þorsteinn og bætir við kíminn: „Ég er náttúrulega svo kornungur.“
Þá hefur lítið verið um uppákomur, eitt sprungið dekk, en það gerði þó lítið til því hjónin voru með aukadekk og slöngur meðferðis.
Eins og áður sagði er Þorsteinn á loka kílómetrunum í ferðinni núna og þarf hann að passa sig að koma ekki of snemma á lokaáfangastaðinn til að vera ekki á undan móttökunum sem bíða hans í Borgarnesi klukkan sex.
Var hann því í smá pásu þegar blaðamaður náði af honum tali. „Ég er að tímastilla núna,“ segir Þorsteinn.
Áhugasamir geta lesið sig meira til um ferðina hans Þorsteins á Facebook-síðunni Athygli, Já takk - Hjólað Vestfjarða-hringinn.