Líkamsárás í fótboltaleik á Litla-Hrauni

Að sögn fangelsismálastjóra er þetta í fyrsta sinn sem svona …
Að sögn fangelsismálastjóra er þetta í fyrsta sinn sem svona atvik kemur upp. mbl.is/Sigurður Bogi

Fótboltaleikur milli fanga og gesta á Litla-Hrauni í fyrradag fór úr böndunum þegar að fangi fór inn á völlinn og veittist að liðsmanni gestanna. Hann hefur nú verið kærður fyrir líkamsárás. Þetta staðfestir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is.

Rúv greindi fyrst frá.

Fótboltaleikir eru ekki óalgengir viðburðir á Litla-Hrauni en þar er myndarlegur gervigrasvöllur sem er nýttur eins og hægt er yfir sumartímann, að sögn Páls. Þetta mun þó vera í fyrsta sinn sem atvik af þessu tagi kemur upp við þessi tækifæri.

Allar árásir kærðar í fangelsum

Lið eldri flokks Þróttar í Reykjavík sótti lið fanga FC hrotta heim á mánudaginn. Að sögn Páls lentu leikmenn liðanna saman, eins og gengur og gerist í fótbolta, en þegar búið var að leysa þann ágreining rauk einn áhorfendanna inn á völlinn, sem var vistmaður á staðnum, og veitti leikmanni gestanna höfuðhögg.

Leikmaðurinn mun ekki vera alvarlega slasaður en allar líkamsárásir sem eiga sér stað í fangelsum landsins eru kærðar til lögreglu og var þetta engin undantekning. Páll segir þetta einnig flokkast sem agabrot í fangelsi og mun viðkomandi fá viðeigandi agaviðurlög fyrir brotið.

Atvikið komi ekki niður á hópnum

Fangelsið mun bregðast við atvikinu með því að sýna meiri gát þegar að næstu samkomur verða í fangelsinu, að sögn Páls.

„Við leggjum hins vegar áherslu á það að öll virkni er mjög góð og iðkun íþrótta er jákvæð og mikilvæg fyrir skjólstæðinga okkar þannig við ætlum ekki að láta þetta koma niður á hópnum í heild,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka