Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Litlu mátti muna þegar alda var nálægt því að hrífa með sér ferðamann í Reynisfjöru í dag. Arinbjörn Sigurgeirsson leiðsögumaður var staddur í fjörunni og náði myndum af aðstæðum.
„Þarna er fólk bara of nærri sjónum, of neðarlega í fjörunni, og þarna var einhver sem virtist vera aðeins út með klettunum og sjórinn var bara að ná inn í klettana stöku sinnum.
Fólk er að hlaupa undan sjónum þarna og flestir sleppa nema maðurinn þarna lengra frá sem lendir í öldunni,“ segir Arinbjörn í samtali við mbl.is en bætir við að maðurinn hafi náð að forða sér á endanum.
Segir Arinbjörn að stuttu síðar hafi komið önnur stór alda og margt fólk orðið rennandi blautt.
„Það voru þarna feðgar, maður með tiltölulega ungan strák og var alltaf að benda syninum á öldurnar sem voru að koma, og svo urðu þeir að snúa við og hlaupa þegar ein kom. Hvort þetta er einhver spennuþörf hjá fólki veit ég ekki en þetta er allavega að skapa þær aðstæður að þarna eru að verða inn á milli banaslys.
Segjum bara að maður hefði séð að einhver hefði sogast út, það er ekki séns að neinn geti farið út í þessar aðstæður til þess að bjarga viðkomandi.“
Arinbjörn var með fjórtán manna hóp frá Bandaríkjunum og varaði sinn hóp við aðstæðum. „Við vöruðum fólkið mjög vel við á leiðinni þangað og sögðum þeim að þarna hefði orðið banaslys nýlega.“