Maðurinn kominn út úr íbúðinni

Sérsveitarmenn sjást hér ganga frá að loknum aðgerðum nú í …
Sérsveitarmenn sjást hér ganga frá að loknum aðgerðum nú í hádeginum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður á sjötugsaldri,  sem grunaður er um að hafa skotið að kyrr­stæðum bíl við Miðvang í Hafnar­f­irði, er kominn út úr íbúðinni og hefur verið handtekinn. Þetta segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Lögreglan var með mikinn viðbúnað á svæðinu í dag. 

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á vettvangi í dag.
Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á vettvangi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli segist í samtali við mbl.is vera ánægður með að málinu hafi lokið með þessum hætti. „Hann er búinn að gefa sig fram. Hluti af samningatækninni er að hann komi sjálfur fram sem hann svo gerði.“

Viðbúnaður var mikill í morgun.
Viðbúnaður var mikill í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bætir hann við að hann sé ánægður með vinnubrögð lögreglu sem skiluðu sér í þessari niðurstöðu, í stað þess að þurfa fara inn í húsið og sækja manninn. „Sem betur fer,“ bætir Skúli við. 

Að sögn Skúla verður maðurinn færður niður á lögreglustöð þar sem verður tekin skýrsla af honum. Segir Skúli að aðgerðir lögreglu hafi gengið mjög vel í dag og að þeir hafi verið tilbúnir að vera á svæðinu miklu lengur, ef þess hefði þurft.

Sem fyrr segir, er maðurinn á sjötugsaldri. Grunur lék á að maðurinn, sem er íbúi í húsinu, hefði skotið á kyrrstæða bifreið sunnan megin við fjölbýlishúsið, en tilkynning þess efnis barst á áttunda tímanum í morgun.

Sérsveit ríkislögreglustjóra var strax kölluð til vegna alvarleika málsins, en hún handtók manninn í hádeginu. Hann kom sjálfviljugur út úr íbúðinni og veitti ekki mótspyrnu við handtökuna.

Lögreglan tekur fram að rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi. Ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.

Viðbúið er að mál eins og þetta veki upp ótta og skapi vanlíðan hjá fólki og því vill lögreglan benda á hjálparsíma Rauða krossins, 1717, en hann er opinn allan sólarhringinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert