Næsta skref að auglýsa eftir tveimur dómaraefnum

„Við verðum bara að taka þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
„Við verðum bara að taka þessu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við verðum að skila inn þremur dómaraefnum. Ég er bara með eitt, við þurfum að auglýsa eftir fleirum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Hún upplýsti ríkisstjórnina um stöðu mála er við koma dómaraefnum Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, á ríkisstjórnarfundi. 

Hefja þarf umsóknarferlið upp á nýtt, í ljósi þess að tveir af þremur umsækjendum, sem Katrín hafði tilnefnt, hafa ákveðið að draga umsókn sína til baka. 

Seinkar ferlinu

Stöður tveggja umsækjenda verða auglýstar og vonast Katrín til þess að geta tilnefnt nýja umsækjendur á tilsettum tíma.

„Við þurfum að hafa þrjú dómaraefni sem þingið svo kýs á milli, þannig að næsta skref er að birta auglýsingu.“

Þetta bakslag kemur til með að seinka ferlinu en þó ekki verulega, að sögn Katrínar. Skipa þarf nýjan íslenskan dómara við MDE sem tekur við af Róberti R. Spanó þegar embættistíð hans lýkur, þann 31. október. 

Katrín er sjálf nýkomin heim frá Strassburg, þar sem dómstóllinn er og skipunarferlið fer fram. Aðspurð hvort þetta sé óheppilegt fyrir Ísland út á við svarar hún: „Við verðum bara að taka þessu og vinnum áfram að því að ljúka málinu.“

„Uppfylla öll formskilyrði í raun og veru“

Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, sagði í viðtali við mbl.is í gær, að sennilega hefðu þeir Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson dregið umsóknir sínar til baka eftir að viðraðar hafi verið efasemdir um hæfi þeirra. 

Katrín segir að sérstök hæfisnefnd, skipuð hér heima og leidd af Ragnhildi Helgadóttur, hafi metið hæfi umsækjenda, áður en hún tilnefndi þá.

„Þessir þrír einstaklingar uppfylla öll formskilyrði í raun og veru. Síðan er það ráðgjafanefnd sem tekur við boltanum og skilar því til nefndarinnar sem tekur viðtölin, að umsækjendurnir þrír uppfylli hæfisskilyrði. Þessir þrír einstaklingar fara svo í viðtal og í kjölfarið draga tveir umsóknir sínar til baka.“

Fáir umsækjendur komu á óvart

Nú þarf Katrín að finna tvo hæfa umsækjendur á listann. Innt eftir því hvort hún telji það verða vandasamt, svarar hún:

„Það kom mér persónulega á óvart að það sóttu bara þrjú um stöðuna í vetur, það voru samt líka bara þrjú sem sóttu um 2013 þegar þetta var síðast auglýst, þannig að það er ekki nýtt. Ég lít bara svo á að þetta sé viðfangsefni sem þarf að klára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka