Tómas Arnar Þorláksson
Búið er að opna matvöruverslun Nettó í Hafnarfirði á nýjan leik en henni var lokað tímabundið í morgun vegna skotárásar, sem átti sér stað í blokk fyrir aftan verslunina á Miðvangi. Þetta segir verslunarstjórinn, Lilja Gunnarsdóttir, í samtali við mbl.is.
Að sögn hennar var enginn starfsmaður verslunarinnar mættur til starfa þegar skotárásin átti sér stað, enda opnar verslunin klukkan tíu. Lögreglu var tilkynnt um að skotið hefði verið úr íbúðablokk á bifreið laust fyrir klukkan átta í morgun.
Blaðamaður mbl.is var á staðnum og sá nokkra viðskiptavini ganga hversdagslega að versluninni sem var umkringd lögreglubílum í þeim tilgangi að versla þar. Þeir komu að lokuðum dyrum. Starfsmenn voru þá inn í versluninni og vissu lítið um það sem átti sér stað, að sögn Lilju.
Lögreglan fékk þó að koma inn og voru keypt ýmis matvæli og drykki fyrir lögreglumenn á vettvangi. Spurð hvort að þetta hafi ekki verið óvenjulegur dagur fyrir starfsfólk Nettó, svarar Lilja því játandi.