Pepp Ísland í nýtt húsnæði

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs-og samskiptasviðs Samkaupa, Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, …
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs-og samskiptasviðs Samkaupa, Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Samkaupa, Guðný Helena Guðmundsdóttir, fulltrúi Hjálparstarfs Kirkjunnar innan EAPN og formaður EAPN og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp. Ljósmynd/Aðsend

Samkaup og Pepp Ísland undirrituðu í gær samning þess efnis að frá og með 1. júlí muni samtökin opna fjölskyldu-og fjölmenningarsetur í Arnarbakka í Breiðholti, að því er kemur fram í tilkynningu.

Húsnæðið sem um ræðir hýsti áður verslunina Iceland en Pepp Ísland var áður til húsa í Mjóddinni. Þá segir í tilkynningunni að Samkaup munu styrkja samtökin um húsgögn og matvæli sem munu nýtast í starfinu. 

Jafnframt kemur fram að starf Pepp Íslands, sem er grasrótarstarf EAPN, samtaka gegn fátækt, byggi á sjálfboðaliðum úr hópi fólks sem þekkir frá fyrstu hendi fátækt og félagslega einangrun og fer úr hlutverki þiggjanda yfir í að veita aðstoð til fólks í sömu sporum.

„Það er svo mikilvægt í starfi eins og okkar að geta tekið á móti fólki úr fátækt og félagslegri einangrun með reisn og það gætum við ekki án stuðnings samfélagsins og samfélagssinnaðra fyrirtækja eins og Samkaupa. Við hlökkum til enn frekari samvinnu sem færir okkur nær því takmarki að styðja betur við jaðarsettari hópa samfélagsins um leið og við spornum gegn sóun,” er haft eftir Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur, samhæfingarstjóra Pepp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka