„Þetta var auðvitað mikil hækkun en kannski fyrirséð. Seðlabankinn hefur ekki mörg önnur tæki en ég held að við hljótum að bíða eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, um vaxtahækkun Seðlabankans en bankinn hefur hækkað vexti um eitt prósentustig.
„Það er í rauninni hennar [ríkisstjórnarinnar] að koma heimilum og fjölskyldum í landinu til aðstoðar þegar svona mikil hækkun verður. Hún hefur til þess tækin,“ segir Helga Vala og bætir við:
„Verðbólgan bítur okkur hart og harðast þau sem eiga minnst og hafa minnst á milli handanna og nú verður bara ríkisstjórnin að fara að bregðast við. Hún er búin að draga lappirnar.“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í samtali við mbl.is í dag að stjórnvöld veði að ná tökum á áætlanagerð um uppbyggingu á húsnæði á Íslandi. Helga Vala segist sammála því að stjórnvöld verði að grípa inn í.
Það sem að var gert síðast var auðvitað að dæla peningum í umferð en það var ekkert farið í framboðshliðina að reyna að auka við uppbyggingu húsnæðis. Það var gert af mjög skornum skammti. Stjórnvöld verða að stíga mikla kröftugar inn, auðvitað sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en líka um allt land.“
Þá segir Helga Vala að stjórnvöld verði líka að koma til móts við fólk með því að hækka vaxtabæturnar. Það sé tæki sem ríkisstjórnin getur ákveðið að fara í og sem verður að nota við svona aðstæður. Útgjöldin rjúka upp í hverjum mánuði og það séu fjölskyldur sem hafi ekki svigrúm fyrir slíkt.
Hún segir það auðvitað blasa við að fólk þurfi að búa lengur í foreldrahúsum en það búi ekki allir við þær aðstæður að geta verið fullorðnir heima hjá foreldrum sínum. Aftur bitni þetta því á þeim tekjulægstu og eignaminnstu.
„Stjórnvöld geta brugðist við því með því að styðja betur við barnafjölskyldur og þá tekjulægstu í formi hækkunar á húsnæðisbótum og í vaxtabótakerfinu. Þetta skiljum við öll en ég veit ekki af hverju þau eru að draga svona lappirnar. Það er ekki góð hagstjórn. Það veldur aukakostnaði alls staðar annars staðar í kerfinu ef að stórir hópar líða mikinn skort, það er hræðileg staða.“