Þróttur í íslensku hagkerfi þó útlitið sé svart

Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benedikstsson fjármálaráðherra. Kristinn Magnússon

„Vaxta­hækk­an­ir voru eitt­hvað sem við mátt­um gera ráð fyr­ir, það er mikið hags­muna­mál fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki að ná tök­um á verðbólg­unni,“ seg­ir Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra um stýri­vaxta­hækk­an­ir þær sem pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka kynnti í dag.

Stýri­vext­ir verða hækkaðir um heilt pró­sentu­stig, en hag­fræðideild Lands­bank­ans hafði spáð því að þeir yrðu hækkaðir um 0,75 pró­sent. 

„Því miður eru verðbólgu­vænt­ing­ar á markaði enn tals­vert háar. Við höf­um verið að auka aðhalds­stig rík­is­fjár­mála.“

Tvíþætt óvissa

Bjarni seg­ir helstu óviss­una framund­an vera tvíþætta. Ann­ar­s­veg­ar lýt­ur hún að því hvernig tak­ist að hraða aðgerðaráætl­un vegna fram­boðsskorts á hús­næðismarkaði.

„Þar eru mjög stór áform og við ætl­um í samn­ings­gerð við sveit­ar­fé­lög­in, um að fara í átak til að fjölga íbúðum. Ég hef mikl­ar vænt­ing­ar um að það gangi vel.“

Hins­veg­ar sé það ann­ar „mjög stór óvissuþátt­ur“ að kjara­samn­ing­arn­ir verði laus­ir næsta haust. 

Heim­ili og fyr­ir­tæki í sterkri stöðu

Bjarni bend­ir á að kaup­mátt­ar­aukn­ingu megi sjá hjá öll­um tekju­tí­und­um, bæði fyr­ir árið 2020, sem hafi verið erfitt ár vegna heims­far­ald­urs­ins Covid-19, og sama birt­ist í töl­um fyr­ir árið 2021. 

„Töl­ur úr síðustu álagn­ingu op­in­berra gjalda sýna áfram­hald­andi kaup­mátt­ar­aukn­ingu hjá öll­um tekju­tí­und­um 2021.“

Bjarni seg­ir bæði fyr­ir­tæki og heim­ili vera í sterkri stöðu al­mennt, til að tak­ast á við þær þreng­ing­ar sem framund­an eru vegna verðbólg­unn­ar.

„Það gef­ur til­efni til að nálg­ast verk­efnið af sann­fær­ingu um að við kom­umst í gegn­um þetta.“

Höf­um búið í hag­inn

Rík­is­stjórn­in hef­ur þú þegar beint sér­stök­um aðgerðum til allra tekju­lægstu hóp­anna, að sögn Bjarna.

Tek­ur hann sem dæmi hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, nýj­an barna­bóta­auka og  átak út af hús­næðismarkaðnum.

„Skatt­ar á síðastliðnum árum hafa þró­ast þannig að skatt­byrði tekju­lægsta fólks­ins hef­ur minnkað. Við höf­um verið að búa í hag­inn fyr­ir þessa tíma og heilt yfir erum við með sterka stöðu.“

Næst­minnsta verðbólg­an í Evr­ópu

Sé verðbólgustaðan á Íslandi bor­in sam­an við önn­ur lönd inn­an Evr­ópu, er verðbólg­an á Íslandi næst­lægst, að sögn Bjarna. 

Áhrif stríðsins í Úkraínu smit­ist til lands­ins, líkt og til annarra landa, og þar finni mat­væla­fram­leiðslan einkum fyr­ir af­leidd­um verðhækk­un­um. 

„Við erum sjálf­bær­ari um eig­in orku en aðrar þjóðir. Þetta sýn­ir mik­il­vægi orku­skipta.“

Orku­skipti eru meðal ann­ars, að mati Bjarna, efna­hags­legt sjálf­stæðismál fyr­ir Íslend­inga. Því met­ur hann það mik­il­vægt að tefla fram metnaðarfull­um áform­um á því sviði. 

Inn­flutt verðbólga í bland við fram­boðsskort

„Við erum að upp­lifa blöndu af inn­fluttri verðbólgu og fram­boðsskorti á hús­næðismarkaði og erum að bregðast við í sam­ræmi við það.“

Bjarni seg­ir ís­lenskt sam­fé­lag hafa séð svart­ari stöðu en þessa sem nú er uppi. 

„Það er langt síðan við sáum jafn háa verðbólgu vest­an­hafs og í Evr­ópu og við sjá­um núna.“ Það geti haft áhrif á viðskipta­kjör og því sé ekki bjart framund­an í alþjóðahag­kerf­inu.

„Það er engu að síður mik­ill þrótt­ur í ís­lenska hag­kerf­inu um þess­ar mund­ir.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert