Tuttugu farþegar Icelandair, sem áttu bókað til Zürich í Sviss í morgun, voru færðir yfir í aðra flugvél sem flaug þess í stað fyrst til Amsterdam og svo þaðan til Zürich.
Guðni Sigurðsson, sérfræðingur á upplýsingasviði Icelandair, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir ástæðuna mega rekja til manneklu og álags á flugvöllum erlendis. Það hafi valdið því að flugvélinni, sem átti að fljúga með farþegana til Zürich, seinkaði.
Minni flugvél var til taks á Keflavíkurflugvelli og því ákveðið að láta hana fylla í skarðið. Það var þó ekki pláss fyrir alla farþegana og því varð að flytja tuttugu farþega í annað flug.
„Við leggjum áherslu á að valda sem minnstum óþægindum.“
Guðni segir að þeir farþegar sem hafa bókað flug með Icelandair til áfangastaðar með millilendingu í Zürich, séu í forgangi þegar kemur að því að koma þeim á lokaáfangastað, enda liggja þá fyrir gögn í kerfi Icelandair um tengiflugið.