Var hrædd um börnin á leikskólanum

Frá Miðvangi í morgun. Lögregla leitast við að hindra aðkomu …
Frá Miðvangi í morgun. Lögregla leitast við að hindra aðkomu óviðkomandi. mbl.is/Tómas Arnar

Sigurlaug Jakobína Vilhjálmsdóttir, íbúi í Miðvangi 41 Hafnarfirði, kveðst aldrei hafa átt von á því að upplifa atburðarrásina sem hófst í dag þegar skotið var úr glugga fjölbýlishússins sem hún á heima í. Vakti það ugg í brjósti þegar hún sá að rúða í bíl sem stóð nærri leikskólanum var mölbrotin eftir byssuskot og þóttist hún nokkuð viss um að farþegi hefði verið í bílnum þegar skotinu var hleypt af.

Hún var nývöknuð þegar skotárásin hófst í morgun fyrir klukkan átta en varð þó ekki vör við hvellina. Það var ekki fyrr en hún tók eftir viðbúnaði lögreglu að hún áttaði sig á að eitthvað stórt væri í gangi. 

Sérsveitin var kölluð út klukkan tuttugu mínútur í átta í morgun og upp úr hádegi var karlmaður á sjötugsaldri handtekinn. Skot hæfðu bíla á bílastæði við fjölbýlishúsið og leikskólann Víðivelli sem er við hliðina á. Maður og sex ára sonur hans voru inni í öðrum bílnum þegar skotið var á hann. Enginn slasaðist þó.

„Ég er eiginlega búin að vera ísköld í allan dag. Þetta snertir taugarnar manns,“ sagði Sigurlaug í samtali við mbl.is.

Frá aðgerðum lögreglu við Miðvang í dag.
Frá aðgerðum lögreglu við Miðvang í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrædd um litlu börnin

Íbúð Sigurlaugar er á sjöundu hæð en íbúð mannsins sem grunaður er um skotárásina er á þeirri þriðju. Hún kveðst ekki hafa upplifað að ógn steðjaði að henni enda lögreglumenn og sérsveitarmenn búnir að koma sér fyrir víðs vegar um húsið.

Hún varð þó skelkuð þegar hún sá að rúða á bíl sem var lagður við leikskólann var mölbrotin og dyrnar bílsstjóra megin stóðu opnar. Taldi hún nokkuð víst að einhver hefði verið inni í bílnum þegar skotið var á hann, sem reyndist svo rétt.

Þá hafi hún haft miklar áhyggjur þegar hún sá lögregluþjóna æða inn í leikskólann sem stóð nálægt húsinu. Alls voru 17 börn og 21 starfsmaður mættur á leikskólann þegar að skothríðin hófst. Engan sakaði þó.

„Það veitti mér óskaplega mikinn ugg að hann var að skjóta í átt að leikskólanum,“ segir Sigurlaug sem kveðst hafa verið með miklar áhyggjur af litlu börnunum og þeim sem annast þau.

Fengu engar upplýsingar

Að sögn Sigurlaugar óskaði hún þess að fá að vita meira um stöðu mála á meðan að aðgerðin stóð yfir en engar upplýsingar komu frá lögreglu. Þurfti hún því að bíða fregna frá fjölmiðlum. „Ég fékk ekkert að vita.“

Hún tekur þó fram að lögreglan hafi að öðru leyti staðið sig ótrúlega vel og tekur hún hatt sinn ofan fyrir samningamanninum sem var með gríðarlega erfitt verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert