Var hrædd um börnin á leikskólanum

Frá Miðvangi í morgun. Lögregla leitast við að hindra aðkomu …
Frá Miðvangi í morgun. Lögregla leitast við að hindra aðkomu óviðkomandi. mbl.is/Tómas Arnar

Sig­ur­laug Jakobína Vil­hjálms­dótt­ir, íbúi í Miðvangi 41 Hafnar­f­irði, kveðst aldrei hafa átt von á því að upp­lifa at­b­urðarrás­ina sem hófst í dag þegar skotið var úr glugga fjöl­býl­is­húss­ins sem hún á heima í. Vakti það ugg í brjósti þegar hún sá að rúða í bíl sem stóð nærri leik­skól­an­um var möl­brot­in eft­ir byssu­skot og þótt­ist hún nokkuð viss um að farþegi hefði verið í bíln­um þegar skot­inu var hleypt af.

Hún var ný­vöknuð þegar skotárás­in hófst í morg­un fyr­ir klukk­an átta en varð þó ekki vör við hvell­ina. Það var ekki fyrr en hún tók eft­ir viðbúnaði lög­reglu að hún áttaði sig á að eitt­hvað stórt væri í gangi. 

Sér­sveit­in var kölluð út klukk­an tutt­ugu mín­út­ur í átta í morg­un og upp úr há­degi var karl­maður á sjö­tugs­aldri hand­tek­inn. Skot hæfðu bíla á bíla­stæði við fjöl­býl­is­húsið og leik­skól­ann Víðivelli sem er við hliðina á. Maður og sex ára son­ur hans voru inni í öðrum bíln­um þegar skotið var á hann. Eng­inn slasaðist þó.

„Ég er eig­in­lega búin að vera ís­köld í all­an dag. Þetta snert­ir taug­arn­ar manns,“ sagði Sig­ur­laug í sam­tali við mbl.is.

Frá aðgerðum lögreglu við Miðvang í dag.
Frá aðgerðum lög­reglu við Miðvang í dag. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hrædd um litlu börn­in

Íbúð Sig­ur­laug­ar er á sjö­undu hæð en íbúð manns­ins sem grunaður er um skotárás­ina er á þeirri þriðju. Hún kveðst ekki hafa upp­lifað að ógn steðjaði að henni enda lög­reglu­menn og sér­sveit­ar­menn bún­ir að koma sér fyr­ir víðs veg­ar um húsið.

Hún varð þó skelkuð þegar hún sá að rúða á bíl sem var lagður við leik­skól­ann var möl­brot­in og dyrn­ar bíls­stjóra meg­in stóðu opn­ar. Taldi hún nokkuð víst að ein­hver hefði verið inni í bíln­um þegar skotið var á hann, sem reynd­ist svo rétt.

Þá hafi hún haft mikl­ar áhyggj­ur þegar hún sá lög­regluþjóna æða inn í leik­skól­ann sem stóð ná­lægt hús­inu. Alls voru 17 börn og 21 starfsmaður mætt­ur á leik­skól­ann þegar að skot­hríðin hófst. Eng­an sakaði þó.

„Það veitti mér óskap­lega mik­inn ugg að hann var að skjóta í átt að leik­skól­an­um,“ seg­ir Sig­ur­laug sem kveðst hafa verið með mikl­ar áhyggj­ur af litlu börn­un­um og þeim sem ann­ast þau.

Fengu eng­ar upp­lýs­ing­ar

Að sögn Sig­ur­laug­ar óskaði hún þess að fá að vita meira um stöðu mála á meðan að aðgerðin stóð yfir en eng­ar upp­lýs­ing­ar komu frá lög­reglu. Þurfti hún því að bíða fregna frá fjöl­miðlum. „Ég fékk ekk­ert að vita.“

Hún tek­ur þó fram að lög­regl­an hafi að öðru leyti staðið sig ótrú­lega vel og tek­ur hún hatt sinn ofan fyr­ir samn­inga­mann­in­um sem var með gríðarlega erfitt verk­efni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert