Andlát: Sólon R. Sigurðsson, fv. bankastjóri

Sólon R. Sigurðsson.
Sólon R. Sigurðsson.

Sólon R. Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri, lést á Landspítalanum á þriðjudaginn, áttræður að aldri. Hann fæddist 1. mars 1942 í Reykjavík, en foreldrar hans voru Valgerður Laufey Einarsdóttir, f. 12.6. 1920, d. 20.5. 2003, og Sigurður Magnús Sólonsson múrarameistari, f. 16.11. 1907, d. 1.5. 1958.

Sólon lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti 1958. Hann stundaði nám við MR 1958-1962, en ákvað á lokaári að hefja störf hjá Landsbankanum. Var hann þar almennur starfsmaður, fulltrúi, gjaldkeri og deildarstjóri til ársins 1972 en var þá sendur til Lundúna til að kynna sér bankamál. Vann Sólon þá hjá Scandinavian Bank og var þar til 1973. Sama ár stundaði hann nám hjá National Westminster Bank og Manufacturers Hannover Trust í Lundúnum.

Sólon sneri aftur til starfa sem deildarstjóri hjá Landsbankanum 1973 og sinnti því til 1978, er hann varð útibússtjóri bankans í Snæfellsútibúi. Var hann útibússtjóri til ársins 1982, en sumarið 1980 fór hann í námsdvöl hjá International Banking Summer School í Kanada.

Sólon færði sig yfir til Búnaðarbankans árið 1983, en þá var hann ráðinn aðstoðarbankastjóri og forstöðumaður erlendra viðskipta hjá bankanum.

Árið 1990 var Sólon ráðinn bankastjóri Búnaðarbankans og sat hann í þeirri stöðu allt til ársins 2003 er bankinn var sameinaður Kaupþingi. Varð Sólon þá annar tveggja bankastjóra KB banka, allt þar til hann lét af störfum í desember 2004.

Sólon sinnti auk þessa margvíslegum öðrum störfum og félagsmálum. Hann sat í fjölda stjórna og var stjórnarformaður ýmissa fyrirtækja sem bankarnir og Búnaðarbanki Íslands áttu í sameiningu, eins og t.d. VISA Ísland. Þá var hann um hríð stjórnarformaður Lýsingar fjármögnunarfyrirtækis og Sjóvár.

Sólon var ritstjóri Bankablaðsins 1975-1989 og formaður sóknarnefndar Víðistaðasóknar í Hafnarfirði 1992-1999. Þá sat hann í stjórn Handknattleiksráðs Reykjavíkur og varastjórn HSÍ um skeið og var formaður Golfklúbbsins Jökuls.

Eiginkona Sólons var Jóna Vestfjörð Árnadóttir, f. 4. apríl 1943, d. 19. maí 2022, en þau giftust 29. desember 1962. Þau áttu saman þrjú börn; Guðrúnu Margréti, f. 20. apríl 1962, Sigurð Magnús, f. 5. júlí 1965 og Árna Val, f. 10. október 1966, maki: Svanlaug Ida Þráinsdóttir, f. 1.6. 1966. Barnabörn þeirra eru níu og barnabarnabörnin sex talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert