Tinna María Sævarsdóttir kláraði framhaldsskólann á tveimur árum og dúxaði í þokkabót þegar hún útskrifaðist frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Tinna segir þó að það hafi aldrei verið markmiðið hjá sér að klára námið á tveimur árum.
Segir Tinna í samtali við mbl.is að hún sé mjög stolt og ánægð með sjálfa sig að hafa lokið þessum áfanga. Að hennar sögn er það mikilvægast til að ná svona áfanga að skipuleggja sig vel og hafa mikinn metnað. „Þetta var alveg krefjandi á köflum en alls ekki óyfirstíganlegt. Auk þess höfum við gott af því að henda okkur stundum út í djúpu laugina og stíga út fyrir þægindarammann. Það er svo vel þess virði og skilar okkur oftast góðum árangri,“ segir Tinna.
Segist Tinna ekki hafa stefnt að því til að byrja með að klára framhaldsskólann á tveimur árum heldur hafi allt gengið upp sem þurfti að ganga upp. Hún bendir á að hún hafi fengið ýmislegt metið til eininga úr íþróttastarfi sínu. Til að mynda hafði hún lokið öllum stigunum í þjálfaramenntun hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og fékk það metið.
Gaf þetta henni betri tíma til að fjölga bóklegum fögum á hverri önn. „Svo þegar ég fór að skoða betur þá áfanga sem eftir voru sá ég að það var góður möguleiki á að klára þetta fyrr, ég þurfti bara að leggja inn aðeins meiri vinnu.“
Segir hún að auki það mikinn misskilning að þeir sem dúxa geri ekki neitt annað en að læra. Segir hún þá að hún hafi margoft verið spurð hvort að hún hafi átt sér eitthvað líf utan námsins. Bætir Tinna við að hún hafi vissulega átt sér líf utan námsins og það sé þökk góðs skipulags.
Að mati Tinnu felast mikil lífsgæði í því að læra á Höfn í Hornafirði þar sem hún ólst upp. „Náttúran hér í kring, stuttu vegalengdirnar og allt frelsið, það jafnast eiginlega ekkert á við það og ég veit að ég á eftir að sakna heimaslóðanna þegar ég flyt að heiman. Fyrir mér eru það mikil forréttindi að geta stundað nám í heimabyggð og búið í foreldrahúsum áður en haldið er á vit ævintýranna.“
Að lokum segir Tinna aðspurð ætla taka sér hlé frá skóla í eitt ár til að vinna og ferðast um heiminn. Hún stefnir svo á að hefja nám í lögfræði haustið 2023.