„Umræðan um mikilvægi félagslegra framfara hefur aldrei verið eins mikilvæg. Þjóðir heims eru að koma undan heimsfaraldri og síðan geisar stríð í nágrenni okkar í Evrópu. Sennilega hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vita hver hin raunverulega staða er,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, sérfræðingur og fulltrúi SPI á Íslandi. Hún er ein þeirra sem stendur fyrir Framfaravoginni á Íslandi, sem mælir félagslegar framfarir samfélaga.
Morgunblaðið talaði við Rósbjörgu og hagfræðingana Gunnar Haraldsson og Harald J. Hannesson, sem eru hluti af teymi SPI á Íslandi, sem sér um útgáfu Framfaravogarinnar.
Framfaravogin er úttekt, unnin eftir ströngum reglum vísitölu félagslegra framfara eða Social Progress Imperative, SPI. Úttektin er unnin á sveitarstjórnarstigi. Mældir eru félagslegir og umhverfislegir þættir og endurspeglað hvernig hefur tekist til. Þannig hjálpar úttektin við að taka ákvarðanir er lúta að þessum málaflokkum.
„Framfaravogin sýnir í raun stöðu sveitarfélaganna og byggist einungis á vísum sem eru umhverfisvænir og félagsvænir. Það er að segja, við erum ekki með neina efnahagslega vísa. Við skoðum framþróun og horfum til þess að við erum með stjórntæki sem nýtist við það að taka stefnumótandi ákvarðanir og forgangsraða aðgerðum í þágu íbúa. Hún segir okkur hvernig okkur hefur tekist til með þá þætti sem snúa að grunnþörfum, grunnstoðum velferðar og tækifærum einstaklingsins. Framfaravogin sem stjórntæki nýtist öllum, sveitarfélögunum, stjórnvöldum, atvinnulífinu og einstaklingunum,“ segir Rósbjörg og bætir við: „Við þurfum að taka upplýstar ákvarðanir, sem byggjast á vísindalegum aðferðum. Við þurfum að sjá langtímaárangur og það er það sem þetta verkfæri getur sýnt, markvisst.“
Framfaravogin var fyrst unnin fyrir Kópavogsbæ árið 2017. Bærinn kynnti sína fyrstu úttekt vorið 2018 en strax í kjölfarið bættust Reykjanesbær og sveitarfélagið Árborg við. SPI á Íslandi hefur séð um úttektina fyrir sveitarfélögin þrjú en í ár mun hún ná til stærstu sveitarfélaga landsins. Framfaravogin árið 2022 kemur út í lok ágústmánaðar.
„Við erum að vinna úttektina núna fyrir árið 2022, sem verður mun stærri en áður. Við vinnum úttektir fyrir stærstu sveitarfélög landsins, þar sem yfir 80% allra landsmanna búa. Í sveitarfélögunum þremur hefur verið lagður grunnur að vinnu okkar á landsvísu en þau hafa brugðist við upplýsingunum frá okkur með alls kyns aðgerðum og úrlausnum til góðs,“ segir Rósbjörg.
Gunnar Haraldsson telur nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar ekki hafa nein sérstök áhrif á vinnu þeirra, enda sé hún ekki pólitísks eðlis. Hins vegar geti úttektir SPI stutt við pólitískar ákvarðanir, eins og við forgangsröðun fjárveitinga.
„Við mælum aldrei fjárútlát eða til dæmis hve miklu er varið til skólamála, sem er stórt mál á sveitarstjórnastigi, heldur mælum við hverju skólarnir eru að skila. Þannig er hægt að bera saman á milli ára hvort þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, fjárhagslegar eða ekki, hafi skilað árangri. Markmiðið getur ekki verið að auka útgjöldin heldur hlýtur það að vera að bæta stöðuna,“ segir Gunnar.
„Stærsta áskorunin á Íslandi er að við eigum ekki gögn um drykkjarvatn, því okkur finnst það svo sjálfsagt. Svo eru engin samanburðarhæf gögn um líðan íbúa af erlendum uppruna. Þau eru ekki aðgengileg fyrir sveitarfélög. Samt er verið að setja niður heilu samfélögin af fólki sem er af erlendu bergi brotið,“ segir Rósbjörg.
Gunnar segir þær áskoranir sem glíma þarf við breytilegar og ólíkar eftir sveitarfélögum.
„Í alþjóðlegum samanburði stöndum við vel en það vantar samanburðarhæf gögn um það hvernig skólakerfið okkar virkar. Hverju það skilar. Með þessu er ekki verið að áfellast skólakerfið fyrir að vera lélegt eða skila ekki því sem við vonumst til en við höfum í raun ekki góðar samanburðarhæfar upplýsingar til að meta það.
Þau mál sem snúa að möguleikum þeirra sem eru af erlendum uppruna og tala jafnvel ekki íslensku, til dæmis þátttaka þeirra í samfélaginu, er atriði sem við þurfum að fylgjast betur með. Þetta getur orðið stórt mál, sérstaklega í sveitarfélögunum þar sem innflytjendur eru að verða fjölmennir,“ segir Gunnar.
Haraldur leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að hafa í höndunum gögn til þess að taka upplýstar ákvarðanir. Rósbjörg og Gunnar taka undir það. Þau þrjú sóttu nýlega ráðstefnuna Hvað virkar í félagslegum framförum eða What Works in SPI og fannst þeim einna helst standa upp úr hvað vandamálin geta verið mismunandi eftir heimshlutum. Gunnar bætir við:
„Í ljós kemur að það skortir víða sambærileg gögn, sem við viljum mæla, sem lúta að skólamálum og einnig að umhverfismálum, gæðum vatns og öðru.“
ATB Financial var einn stærsti styrktaraðili ráðstefnunnar í ár sem var haldin í Banff í Alberta-fylki í Kanada, í fyrsta skipti utan Íslands.Útsendarar frá fyrirtækinu sóttu ráðstefnuna á Íslandi árið 2019 og í kjölfarið var ráðist í úttekt og aðgerðir fyrir Alberta og stefnt á að halda ráðstefnuna þar.