Gránað hefur í fjöll á Vaðlaheiði fyrir norðan þar sem kalt loft er yfir landinu.
„Það er mjög kalt loft yfir landinu og verður svoleiðis núna en tekur upp að mestu leyti yfir daginn á morgun. Verður jafnvel kalt aðfaranótt laugardags líka en síðan er þetta líklega búið,“ segir vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
„Þetta gerist alltaf annað slagið þegar nær í kalda norðanátt eins og núna. Hún er nokkuð hvöss og við búum bara svo norðarlega á kúlunni að þetta getur gerst annað slagið.“
Greint var frá því í gær að hætt væri við hálku á hæstu fjallvegum norðan- og vestanlands. Er þó engin hálka á landinu eins og er.
„Það er hins vegar svolítil úrkoma sem kemur inn á norðanvert landið í kvöld og mun kólna um eina til tvær gráður yfir nóttina. Þar sem það eru bara ein til fjórar gráður þarna núna er frekar í nótt sem það gæti komið smá snjór á veginn, sem veldur þá hálku," segir veðurfræðingur..
„Menn þurfa kannski að hafa það í huga ef þeir ætla að ferðast seint í kvöld og í nótt, að það gæti verið ákveðinn snúningur, ég myndi sleppa því ef það er ekki nauðsynlegt.“