Reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum hefur verið kynnt á samráðsgátt stjórnvalda.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að reglugerðin hafi verið unnin í framhaldi af skýrslu sem starfshópur skilaði til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í lok maí. Hópurinn var skipaður í lok síðasta árs til að skoða starfsemi, regluverk, eftirlit og löggjöf vegna blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Í skýrslunni kemur fram að lagaumgjörðin um blóðtöku úr fylfullum hryssum sé í senn óljós og óviðunandi þar sem um nokkuð umfangsmikla og umdeilda starfsemi sé að ræða. Tilgangur reglugerðarinnar sé því að tryggja velferð og heilbrigði allra hryssna sem nýttar eru í blóðtöku, folalda þeirra og stóðhesta sem notaðir eru til fyljunar þeirra.
Í reglugerðinni er m.a. gert ráð fyrir að hrossahald til blóðtöku verði einungis heimilt að fengnu sérstöku leyfi Matvælastofnunar að undangenginni úttekt stofnunarinnar.
Einnig er gert ráð fyrir að kaupanda verði gert óheimilt að flokka greiðslur eftir því hversu miklar heimtur eru úr hverju hrossi.
„Með setningu reglugerðarinnar verður hin óljósa réttarstaða starfseminnar færð til betri vegar. Gildistími reglugerðarinnar verður nýttur til að fylgjast með og leggja mat á framtíð starfseminnar,“ segir í tilkynningunni.
Samhliða telji matvælaráðherra rétt að efna til sérstakrar umfjöllunar um siðferðileg álitamál tengd starfseminni.
„Með því að setja reglugerð af þessu tagi verður skýrt að starfsemin er leyfisskyld og háð skilyrðum og jafnframt að hún fellur ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 460/2017, um dýr sem notuð eru í vísindaskyni.“
Reglugerðina má nálgast hér.