Íslendingar verða að láta af tepruskap í umræðunni um varnar- og öryggismál hér á landi. Heimsmyndin er að breytast og við því verður að bregðast. Ef ummæli forsætisráðherra Eistlands reynast sönn, um að það taki allt að þrjá mánuði fyrir Atlantshafsbandalagið (NATO) að bregðast við innrás í Eystrasaltsríkið, þurfa Íslendingar að fara að íhuga stöðu sína sem smáríki með ekkert varnarlið.
Mikilvægt er að skoða varnarsamninga og hefja samtöl, m.a. við Evrópusambandið eða Bandaríkin, um aukið varnarsamstarf.
Þetta kom fram í máli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, í pallborði á fundi ungliðanefndar Varðbergs, Staða varnar- og öryggismála á Íslandi, sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík fyrr í dag.
Auk Þorgerðar Katrínar sátu einnig Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, við pallborðið. Geir Ove Øby, fulltrúi í Atlantshafsbandalaginu, hélt framsöguerindi.
Allir við pallborðið voru sammála um mikilvægi þess að gera úttekt á varnar- og öryggismálum á Íslandi. Þá töldu þau varnarmál almennt hafa verið vanrækt hér á landi.
Björn sagði að því hefði ranglega verið haldið fram að stríðið í Úkraínu myndi ekki snerta öryggismál í Norður Atlantshafi.
Sagði hann Ísland þurfa að hafa í huga að ef landher Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta færi illa út úr stríðin – líkt og stefnir í núna – þá ætti forsetinn flotann sinn eftir og af honum er Norðurflotinn sá öflugasti. Gæti Pútín gripið til hans til að sýna hernaðarmátt Rússa.
Að sögn Björns er ekkert sem segir hvað við eigum að gera þegar vegið er að ytra öryggi þjóðarinnar og er þörf á úrbótum í þeim efnum. Hann var þó ekki sammála Þorgerði Katrínu um að skynsamlegt væri að leita til ESB upp á varnarsamstarf.
Aukið umsvif rússneska flotans í kringum Ísland er áhyggjuefni, sagði Baldur Þórhallsson. Þá sagði hann enn meira áhyggjuefni að ráðamenn í Kreml væru óútreiknanlegri en áður og að ekki væri hægt að vera með kenningar um þeirra næstu skref, líkt og á tímum Sovétríkjanna. Mögulega gæti steðjað hætta að sæstrengnum.
Að sögn Baldurs er Ísland eina NATO-ríkið sem ekki er með lítið varnarlið sem getur gripið til og varist óvinasveit á meðan stærri sveit kemur til landsins. Alvarlegt er ef nokkrir mánuðir líði hjá áður en NATO komi til aðstoðar.
Telur hann mikilvægt að Íslendingar stórauki rannsóknir á sviði öryggis- og varnarmála og væri hann til í að sjá samráðsvettvang akademíunnar, stjórnvalda, stofnanna og einkafyrirtækja sem sjá um öryggismál, til að efla öryggi í landinu.