Síðustu árin hafa heildartekjur allra tekjuhópa hækkað og kaupmáttur aukist. Allir tekjuhópar greiða nú minni tekjuskatt en áður, nema þeir sem allra hæstar tekjur hafa. 83% af nettótekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda.
Þetta kemur fram í greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda eftir tekjutíundum út frá skattframtölum.
Í tekjutíund felst að búið er að skipta einstaklingum í 10 jafn stóra hópa þar sem sá fyrsti er með lægstu tekjurnar og sá tíundi með þær hæstu.
Þá segir að meðalhækkun heildartekna frá 2010 nemi 38% á verðlagi ársins 2021 og nær til allra tekjutíunda. Árið 2021 hækkuðu tekjurnar um 4,4% að raunvirði, en í raunvirði felst að leiðrétt er fyrir verðlagshækkunum.
Heildartekjur auk bóta að frádregnum opinberum gjöldum mynda ráðstöfunartekjur einstaklinga. Árið 2021 hækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 5,1% og náði sú aukning yfir allar tekjutíundir.
„Lág- og millitekjufólk greiddi árið 2021 lægra hlutfall í tekjuskatt þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi hækkað sem stafar af samspili tekjuskattsbreytinga og hærri launa. Ef miðað er við 7% hækkun launa árið 2021 má sjá að tekjur eftir skatt hækkuðu umfram 7% launahækkunina vegna lægri greiðslu tekjuskatts hjá lág- og millitekjufólki,“ segir í greiningunni.