Hafin er skoðun á því hvernig almennt skuli haga aðgengi og öryggismálum í leikskólum í Reykjavík. Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur útidyrum að minnsta kosti fjögurra leikskóla í póstnúmerum 108 og 104 verið læst yfir daginn. Foreldrar barna á leikskólum sem heyra undir þjónustumiðstöðina Norðurmiðstöð fengu tölvupóst um málið þar sem segir að þessar ráðstafanir séu aðeins tímabundnar vegna umgengnismáls.
Helgi vill ekki tjá sig um ofangreint mál nema að um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerð.
„Við viljum taka almennt umræðuna hvort við eigum að hafa dyr læstar og foreldrar hringi þá þegar þeir eru að sækja börnin eða hvort við eigum að hafa opið til ákveðins tíma að morgni og ef foreldrar koma með börnin seinna þá hringja þeir,“ segir Helgi.
Þá sé til umræðu hvort dyr leikskólanna skuli vera opnar á þeim tíma sem flestir foreldrar eru að sækja börnin sín, en lokaðar að öðrum kosti. Um sé að ræða stöðumat.
Helgi telur þó að öryggismálum í leikskólum sé ekki ábótavant.
„Við sem samfélag höfum lagt svo ríka áherslu á traust og opnun. Fólk sem er til dæmis með börn í skólum erlendis, þar eru víða læstar allar dyr, en íslenskt samfélag hefur enn sem komið er valið aðrar leiðir og traust er eitt af því sem við Íslendingar höfum verið mjög stoltir af.
Aftur á móti hafa komið upp alvarleg atvik, þó svo að það sé mjög sjaldgæft. Vissulega þurfum við alltaf að vera vakandi fyrir því hvað er að gerast í umhverfi okkar, eins og bara atvikið í Hafnarfirði í gær þar sem verið var að beita skotvopni í nágrenni við leikskóla, þótt það hafi ekki beinst að leikskólanum,“ segir hann.
„Þetta er engu að síður eitthvað sem við þurfum bara að vera stöðugt vakandi fyrir og þora að spyrja okkur spurninga. Sambærileg umræða hefur verið um öryggismyndavélar, hvar eiga þær rétt á sér og hvar ekki.“
Segir Helgi að þetta sé stór samfélagsleg spurning. „Hvar drögum við mörkin? Hvenær ætlum við að skella í lás, hvenær ekki? Þess vegna er þetta bara lifandi umræða sem við verðum að taka.“