Mikil æfing, áhugi og gott viðhorf er lykillinn að því að ganga vel í stærðfræði. Svala Sverrisdóttir þekkir það vel enda útskrifast hún úr stærðfræði við Háskóla Íslands nk. laugardag með 9,95 í meðaleinkunn, aðeins 22 ára gömul. Svala þakkar einnig föður sínum, Sverri Þorvaldssyni, velgengnina en hann hefur verið henni til halds og trausts í faginu síðan hún var lítil.
„Pabbi minn er stærðfræðingur og hann hefur hjálpað mér ótrúlega mikið í gegnum öll námsstigin. Það er gott að hafa kennara hjá sér allan tímann,“ segir hún. Einnig hafi öll fjölskyldan stutt við bakið á henni.
„Þegar ég var lítil hvatti fjölskyldan mín mig áfram. Ég var að taka stærðfræði fyrir eldri krakka á stærðfræðivefnum Rasmus á netinu því ég hafði gaman af stærðfræðinni og gerði þetta til gamans í frístundum þegar ég var lítil,“ segir Svala.
–Svo áhuginn skiptir miklu máli?
„Já algjörlega. Ég fann þegar ég fór í háskólann og fékk að taka eiginlega einungis áfanga í stærðfræði og tölvunarfræði hvað það fór að ganga ótrúlega vel að geta notið þess.“
–Hver var helsti lykillinn að því að ganga svona vel, ásamt því að hafa góðan stuðning?
„Þetta er auðvitað æfing og maður hefur lagt mikla vinnu í þetta. Það þarf áhuga til þess. Síðan skiptir viðhorfið líka máli. Ég fann hvernig viðhorf ég gat mætt með í sum próf eins og stærðfræðiprófin og heimadæmin. Ef þetta er þarna þá hef ég einhvern tímann lært þetta. Þótt þetta hafi ekki verið alveg eins dæmi og ég hef lært áður þá ætti ég að geta notað einhverja hluti sem ég hef lært. Með þessu hugarfari náði ég að vinna mig áfram þegar ég var föst og skildi ekki eitthvað. En æfingin er ótrúlega mikilvæg líka.“
Lengra viðtal við Svölu má nálgast í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.