Markmið stjórnvalda í loftslagsmálum eru bæði óljós og ófullnægjandi að mati Loftslagsráðs sem hefur birt álit á vef sínum þar sem það gagnrýnir aðgerðaráætlun stjórnvalda harðlega, sem og framkvæmd hennar.
Þar segir það nauðsynlegt að stjórnvöld skýri og útfæri markmiðin nánar.
„Auka þarf samdrátt hratt með samstilltu og vel skipulögðu átaki allra,“ segir í álitinu. Til að ná því þurfi að fara af undirbúningsstigi yfir á framkvæmdastig. Auk þess þurfi að beita öflugri greiningum en nú er beitt.
„Loftslagsvæn framtíðarsýn kallar á nýjar áherslur í fjárfestingum og nýsköpun sem leggja mun grunn að verðmætasköpun í kolefnishlutlausu hagkerfi.“
Ráðið bendir á allsherjarmat milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) þar sem fram kemur að mannkynið hafi innan við þrjú ár til að stöðva aukningu á útblæstri og innan við áratug til að draga úr honum um nær helming.
Ráðast þurfi í kerfislægar breytingar svo sem með umbyltingu orkukerfa, samgöngukerfa, skipulags borga, fjármálakerfa og í opinberri hagstjórn.
„Mikilvægt er að stjórnvöld nýti þá víðtæku reynslu og þekkingu sem til staðar er hér á landi sem og erlendis til að hraða aðgerðum.“
Þar megi sér í lagi nefna þriðju skýslu IPCC. Skýrslan, sem kom út í apríl og telur um 2.800 blaðsíður, snýr að því hvernig hægt er að sporna gegn loftslagsbreytingum.
Á vef ráðsins segir að það sé sjálfstætt starfandi og hafi það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald með faglegri ráðgjöf um loftslagsmál. Þá sé hlutverk ráðsins einnig að hafa yfirsýn yfir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings.
Í ráðinu sitja 15 manns, fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga, neytendasamtaka og umhverfisverndarsamtaka meðal annars. Ráðherra skipar auk þess formann og varaformann Loftslagsráðs, auk fulltrúa unga fólksins.