Lýjandi að fleiri mál bíði við lok dags en við upphaf hans

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur verið krefjandi undanfarin ár að reka stofnun þar sem inn koma mun fleiri mál en starfsmannafjöldinn ræður við. Þrátt fyrir samhentan hóp er lýjandi til lengdar að fleiri mál bíði við lok dags en við upphaf hans,“ skrifar Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í ársskýrslu stofnunarinnar.

Helgar tekur einnig fram, að opinber umræða um vinnustaðinn hafi á tíðum verið hörð og óvægin.

„Þegar þetta er ritað liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027, sem gerir ráð fyrir auknu fjármagni Persónuvernd til handa. Vonir eru bundnar við að þessi viðbót hjálpi til við þau gríðarmiklu verkefni sem bíða úrlausnar. Jafnframt er ljóst að hlúa þarf enn betur að fræðslu um persónuvernd til þess að auka þekkingu og skilning á þeim reglum sem helst geta hjálpað ef að okkur er vegið á tækniöld,“ segir Helga jafnframt í skýrslunni, sem er fyrir árið 2021.

Hún bendir ennfremur á að þrátt fyrir miklar samfélagslegar takmarkanir á árinu hafi tekist að ljúka mörgum stórum málum hjá Persónuvernd. Nýskráð mál á árinu hafi verið 2.479.

„Við þessa tölu bættust óafgreidd mál frá fyrri árum og heildarfjöldi mála til meðferðar hjá Persónuvernd árið 2021 var því 3.061. Á árinu lauk Persónuvernd 2.587 málum – fleirum en nokkru sinni áður - en opin og óafgreidd mál við árslok 2021 voru 571 talsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert