Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það lífsnauðsynlegt að fjölga blóðgjöfum hér á landi og að það sé einungis tímaspursmál hvenær fólki verði ekki mismunað vegna kynhneigðar sinnar við blóðgjöf en það er liður í fjölgun blóðgjafa.
Willum gaf blóð í dag í Blóðbankanum sem fékk góð viðbrögð starfsfólks á svæðinu. Eins og greint hefur verið frá ríkir neyðarástand hjá Blóðbankanum vegna skorts á blóði.
Sagði Willum að blóðgjöf lokinni að allt hafi gengið eins og í sögu þökk sé því fína fagfólki sem vinnur í Blóðbankanum. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem að Willum gefur blóð en að hans eigin sögn er allt of langt síðan síðast.
„Ég hefði viljað gera þetta miklu fyrr,“ sagði Willum við komu inn í Blóðbankann. Fór vel um hann í stólnum þar sem var tekið úr honum blóð og óskaði hann að hann myndi fá svona stól fyrir sig í heilbrigðisráðuneytið sem uppskar hlátur viðstaddra.
Segir Willum í samtali við mbl.is að blóðgjöf lokinni að vel staddur lager af blóði hjá Blóðbankanum sé öryggismál fyrir samfélagið og að núverandi blóðgjafar vinni mikið almannaheillastarf. Bætir Willum við að þótt að núverandi blóðgjafar mæti vel og sinni þessu af miklum dugnaði þurfi enn fleiri til að mæta. „Við þurfum, með tilliti til tölulegra staðreynda, augljóslega að fá fleiri með í hópinn,“ segir Willum og biðlar til fólks að skrá sig sem blóðgjafa hjá Blóðbankanum.
„Þess vegna er ég hér og rennur svo sannarlega blóðið til skyldunnar,“ segir Willum kíminn og ítrekar mikilvægi þess að fjölga blóðgjöfum á landinu.
Spurður út í þingsályktun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks sem var samþykkt fyrr í sumar og tekur fyrir fyrirhugaða breytingu sem myndi afnema mismunun gagnvart samkynhneigðum þegar það kemur að blóðgjöf segir Willum þá vinnu vera komna af stað. Hann segir að það sé aðeins tímaspursmál hvenær sú breyting muni eiga sér stað.
„Þegar það verður búið að koma upp því sem er kallað kjarnsýrugreiningu þá geta allir komið að gefa blóð,“ segir Willum og vísar til ákveðinnar tækni sem er verið að vinna í að koma upp í Blóðbankanum núna. Að sögn Willums er sú tækni rétt handan við hornið og því stutt í breytingar hvað þetta varðar. Segir hann það öruggt að breytingarnar muni koma til á þessu kjörtímabili.
Aðspurður segir hann enga andstöðu til staðar gegn þessum breytingum og að mikill samhugur ríki um þetta á Alþingi.