Bílstjóri Já 360° bílsins eltir sólina í sumar

Bílstjórinn kveðst spenntur fyrir verkefninu.
Bílstjórinn kveðst spenntur fyrir verkefninu. Ljósmynd/ Já,is

Sérútbúinn bíll frá Já.is mun keyra um landið í sumar og taka nýjar 360° götumyndir. Þetta er fimmta sumarið sem fyrirtækið ræðst í myndatöku, en fyrsta ferðin var farin sumarið 2013.

Að þessu sinni verður áhersla lögð á að endurnýja allar myndir á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum, en einnig er stefnt að því að Já 360° bíllinn heimsæki helstu þéttbýlisstaði á landsbyggðinni, að því sem fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Fólk geti slegið blettinn og skartað sumarblómum

„Sérstaða okkar hjá Já er nálægðin við samfélagið og því auðveldara fyrir okkur en erlenda samkeppnisaðila að endurnýja myndir jafnt og þétt. Við fáum reglulega góðar ábendingar frá fólki sem notar 360° myndir Já í leik og starfi og við finnum fyrir miklum áhuga á verkefninu.Jafnvel þannig að fólk hefur samband og vill vita hvenær við keyrum framhjá svo það sé örugglega búið að slá blettinn og setja sumarblómin á sinn stað.

Á síðustu árum hefur orðið mikil uppbygging um land allt, ný hverfi sprottið upp og önnur tekið á sig nýja mynd og því finnst okkur mikilvægt að myndirnar séu uppfærðar svo þær nýtist landsmönnum sem best“, segir Daði Heiðar Sigurþórsson, verkefnastjóri hjá Já.

Koma inn á kortavefinn í haust

Sérstakur hugbúnaður er notaður við verkefnið og á bílnum er áföst 360° myndavél. Öll myndagögnin eru með GPS hnitum og verða þau tengd kortavefnum á Já.is. Nýju myndirnar munu koma inn á kortavef Já  í haust.

360° myndirnar eru einnig grunnurinn að Flakk-leiknum, sem fyrirtækið stendur fyrir.

Leikurinn gengur þannig fyrir sig að upp kemur mynd frá fimm stöðum á landinu og þurfa leikendur að giska hvar myndin er tekin.

„Frá því að leikurinn fór í loftið hafa tæplega 200.000 leikir verið spilaðir. Aðdáendur Flakksins geta því látið sig hlakka til að flakka um nýjar myndir í haust.“

Bílstjórinn hlakkar til

Sigurður Júlíusson, bílstjóri á 360° bílsins, kveðst hlakka til að keyra um landið. 

„Veðrið þarf að vera gott og þurrt þegar myndir eru teknar og því má segja að starfið felist í því að elta góða veðrið. Það verður hægt að fylgjast með ferðalaginu á Já.is og á Instagram Já, þar sem ég mun segja frá hvert förinni er heitið hverju sinni og hvernig gengur á leiðinni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert