Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir skjálfta af því tagi sem urðu í gærkvöldi undir Langjökli óalgenga á því svæði.
„Þarna undir miðjum Langjökli eru nú skjálftar ekki algengir,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Um er að ræða vestara gosbelti landsins sem gengur upp frá Hengli að Langjökli, flekaskil sem hann segir að séu deyjandi.
„Þetta er svona grein af flekaskilunum sem er nú eiginlega deyjandi. Hún er hægt og rólega að gefa upp öndina.“
Páll segir að almennt sé viðvarandi skjálftavirkni vestar en stærsti skjálftinn, sem mældist 4,6 að stærð, það er við Kaldadal og Geitlandsjökul. Þá hefur skjálftavirkni austan megin einnig tíðkast.
„Það var skjálfti þarna í apríl og annar í maí. Þannig það er eitthvað í gangi þarna undir jöklinum sem hefur ekki verið í gangi síðustu áratugi.“
Hann áréttar þó að sé um að ræða deyjandi flekaskil – framhald af Þingvallaflekaskilunum sem greinast við Hengil, sumsé flekaskilin milli Norður-Ameríkuflekans og íslenska Hreppaflekans.
Var mikið um eldvirkni þarna fyrir einhverjum árhundruðum?
„Síðasta gos á þessu svæði er eiginlega það sem bjó til Hallmundarhraun,“ segir Páll, þar sem meðal annars finna Surtshelli. Talið er að það gos hafi verið á 10. öld.
„Bara rétt við upphaf Íslandsbyggðar. Þá varð stórt gos þarna, svolítið norðar, við jaðar Langjökuls. Það er síðasta gos sem eitthvað kveður að, á þessari grein flekaskilanna.“